140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í þingumræðu í gær bar einn hv. þingmaður saman auðlindagjald í orku og sjávarútvegi. Ég held að það sé gott að við berum saman stöðu þessara auðlinda nú þegar fjallað er um nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp. Gaman væri að ímynda sér ef Landsvirkjun hygði á orkunýtingu á Þeystareykjum að í stað þess að Landsvirkjun nýtti þá orkuauðlind mundum við úthluta leyfum til nýtingar til þeirra 200 fjölskyldna í landinu sem kaupa mest rafmagn, eða að nota hvað annað viðmið sem við kæmum okkur saman um, og að leyfin til að nýta auðlindina sameiginlega væru þannig afhent örfáum fjölskyldum. Arðurinn sem þessi takmarkaða, verðmæta auðlind skapaði mundi þannig renna beint til viðkomandi fjölskyldna en ekki til sameiginlegra verkefna ríkisins eins og til uppbyggingar menntakerfis, lagningar slitlags, uppbyggingar háskóla eða til annars þess sem við teljum skynsamlegt að verja fjármununum til.

Það er nefnilega þannig, kæri þingheimur, að það kerfi sem við höfum byggt upp í tengslum við nýtingu orkuauðlinda er þannig hugsað að okkar sameiginlega fyrirtæki hafi leyfi til nýtingar auðlinda og að þeir fjármunir sem nýtingin skapar renni til okkar sameiginlegu sjóða. Ekki mundum við vilja hafa það neitt öðruvísi með orkuna.

Þess vegna spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá að vilja hafa það einhvern öðruvísi með fiskinn? (Gripið fram í: Ríkisreksturinn …) Við deilum arði orkunýtingar með þjóðinni allri og þess vegna, og það er einmitt mergurinn málsins, eigum við að breyta því kerfi sem nú ríkir um nýtingu fiskveiðiauðlindar.

Við nýtingu sjávarútvegsauðlindar rennur arður af nýtingunni ekki til þjóðarinnar allrar heldur fyrst til þeirra sem eiga fyrirtækin sem hafa nýtingarleyfi. Um það snýst ágreiningurinn og ég þakka hv. þingmanni fyrir að varpa ljósi á misjafna stöðu orkunýtingar og nýtingar á fiskveiðiauðlind vegna þess að það er einmitt þess vegna sem við eigum að breyta því hvernig við göngum um auðlindina sem í sjónum er. Auðlindarenta myndast í atvinnugrein sem byggir á sérleyfum til nýtingar náttúruauðlinda. Hún er sá umframarður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst. Tilkall til auðlindaarðsins er því annað en hefðbundin skattlagning á rekstur og auðlindarentu ber að miðla til þjóðarinnar allrar, ekki bara til sumra.