140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það var dálítið fróðleg og skemmtileg ræða sem flutt var rétt í þessu. Það var erindi hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í ræðustól til að þurrka tárin og hugga sjálfa sig yfir þeirri hrakalegu útreið sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir fá hjá þjóðinni þessi dægrin. Samkvæmt henni er það einfaldlega þannig að þeir sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn munu allir fylkja sér um Vinstri græna. (Gripið fram í: Já. …) Það er huggunin, það kallast á góðri íslensku sjálfsblekking. Það er auðvitað ágætt fyrir fólk sem neitar að horfast í augu við staðreyndir að stunda einhvers konar sjálfsblekkingu eða tala með þeim hætti sem hæstv. forsætisráðherra gerði í sjónvarpinu um daginn þegar hún sagði að það væri sérkennilegt að íslenska þjóðin skildi þetta ekki, þeir skildu þetta allir í útlöndum. Mátti skilja á hæstv. forsætisráðherra að það sem þyrfti nú að gera væri að skipta um þjóð til að hún gæti þá skilið þau stórkostlegu afrek sem ríkisstjórnin hefði unnið.

Hv. þm. Magnús Orri Schram vék að auðlindamálunum og það var mjög athyglisvert. Nú er komin upp sú kenning að ef sá sem nýtir auðlindina er fyrirtæki eða aðili í eigu ríkisins þurfi sá aðili ekki að skila hluta af þeim arði inn í ríkissjóð. Það er í rauninni sú kenning sem nú er fleytt áfram. Landsvirkjun er auðvitað stórt og öflugt fyrirtæki, Landsvirkjun skuldar mikið, Landsvirkjun skilar mikilli framlegð. Staðan í sjávarútvegi er að mörgu leyti svipuð. Sjávarútvegurinn skuldar, hann skilar góðri framlegð og hugmyndin er að taka stóran hlut af þeirri framlegð og setja í ríkissjóð, sem gerir það að verkum að minni fyrirtækin, skuldugri fyrirtækin, fyrirtækin sem hafa verið að hasla sér völl upp á síðkastið, nýliðarnir, einyrkjarnir, fjölskyldufyrirtækin, munu láta undan síga.

Það sem hér er um að ræða er einfaldlega þetta: Sýnt hefur verið fram á að ef sambærilegar reglur giltu varðandi skattlagningu í orkunni og eiga að gilda varðandi skattlagningu og nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar mundi Landsvirkjun borga 7,5 milljarða kr. Það dettur engum í hug að leggja það til (Forseti hringir.) vegna þess að menn vita að þá færi Landsvirkjun í þrot, þá mundi lánshæfismatið versna, sem mundi gera það að verkum að hún réði ekki við skuldbindingar sínar, það þyrfti að hækka orkuverðið nákvæmlega eins og við erum (Forseti hringir.) að tala um í sambandi við sjávarútveginn. Auðvitað mun það hafa mikil áhrif þegar ætlunin er að taka 27 milljarða kr. út úr veltu greinarinnar af framlegðinni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutíminn er tvær mínútur og biður menn um að virða hann.)