140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið það í skyn að hún telji eðlilegt að orkugeirinn greiði sambærilega auðlindarentu og lagt er til að sjávarútvegurinn greiði í nýju kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Auðvitað væri einfaldast fyrir okkur að fara bara í ríkisrekstur með þetta allt saman. Þau sjónarmið koma fram að Landsvirkjun sé ríkisfyrirtæki og þess vegna renni þetta allt í sameiginlega sjóði okkar, ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að hv. þm. Magnús Orri Schram hafi verið að leggja það til áðan. Þá þyrftum við ekki að vera að þrátta um þessi mál, eitthvert auðlindagjald sem við ætlum að leggja á sjávarútveginn. Þá þyrftum við ekki að vera að rífast um það. Hugsið ykkur hvað málið væri einfalt ef við værum bara með eitt stórt ríkisfyrirtæki í sjávarútvegi. (TÞH: Ekki gefa þeim svona hugmynd.) Það er kannski stefnan með þessu, að mjólka þessi fyrirtæki þannig að þau verði að lokum eitt stórt ríkisfyrirtæki, verði á jötunni og að við getum þá farið að hugsa til bæjarútgerðanna sálugu og hvernig tókst til með þær og hvernig reksturinn var á þeim vettvangi.

Staðreyndin er sú að horft er allt öðruvísi á málin þegar fyrirtækin eru í ríkisrekstri en þegar þau eru í einkarekstri. Ef við reiknum með ávöxtun eigin fjár í orkugeiranum upp á 5,5% á móti 8% í sjávarútvegi þyrfti Landsvirkjun að greiða 7,5 milljarða kr. ef sambærileg gjöld væru lögð á Landsvirkjun í orkugeiranum eins og stendur til að leggja á sjávarútveginn, 7,5 milljarða. Það þarf enga snillinga til að gera sér grein fyrir því hvernig færi þá fyrir Landsvirkjun og þeirri glæsilegu niðurstöðu sem þeir kynntu fyrir okkur á ársfundi á föstudaginn var, hagnaðurinn á Landsvirkjun á síðasta ári var á milli 5 og 6 milljarðar kr., en það dettur engum það í hug. En það er allt í lagi að leggja slíkt á sjávarútveginn og setja hann á vonarvöl. Atvinnuveganefnd þingsins, sem loksins hefur fengið einhver verkefni, (Forseti hringir.) er búin að sitja á fundum núna í nokkra daga þar sem við nefndarmenn höfum farið yfir umsagnirnar og afleiðingarnar (Forseti hringir.) af þessu eru skelfilegar fyrir íslenska þjóð vegna þess hvernig þessi ríkisstjórn veður fram.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti á að ræðutíminn er tvær mínútur og hann ber að virða.)