140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Aldrei slíku vant ætla ég ekki að ræða sjávarútvegsmál. (Gripið fram í.) Ég ætla hins vegar að rifja það upp að árið 2008 samþykkti Alþingi að Íslendingar skyldu ganga til samninga vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu. Það var upptakturinn að Icesave-málinu, þ.e. þeirri viðleitni íslenskra stjórnvalda að semja um skil á greiðslum lágmarksinnstæðna erlendra innstæðueigenda Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hélt ræðu af því tilefni og sagði, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum […] Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna.“

Síðan spyr þingmaðurinn hvort þeir hinir sömu og vilji fara dómstólaleið séu þá tilbúnir að bera herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef málið tapaðist og áréttar að samningsleið í þessu efni sé farsælasta lausnin.

Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þetta var sagt. Tveir Icesave-samningar hafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og verið hafnað. ESA hefur höfðað mál á hendur Íslendingum fyrir brot á EES-samningnum og nú sýnir það sig að málshöfðendur eru engin lömb að leika við og ætla að nýta fullan liðsstyrk. Nú hlýtur sú samviskuspurning að vakna hvort sjálfstæðismenn telji í raun og veru að það hafi verið þess virði að magna upp þá miklu úlfúð sem vakin var vegna Icesave-samninganna og láta pólitíska stundarhagsmuni koma þar með í veg fyrir að málið yrði leyst með samningum milli ríkja, eins og núverandi formaður sjálfstæðismanna lagði sjálfur til í ræðu sinni þann 28. nóvember 2008.