140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kom nú ekki hér upp til að svara síðasta ræðumanni en ég get bent henni á ef hún er búin að gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti samningana varðandi það sem hún fór yfir.

Nú er búið að setja fram nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp þar sem boðað er að leggja eigi 27 milljarða veiðigjald á íslenskan sjávarútveg. Skoðum Vestfirði í því sambandi. Ástæða þess að ég beini sjónum mínum að Vestfjörðum er að í morgun var sagt frá því í blaði allra landsmanna að verið hefði mikill átakafundur á Ísafirði í gær hjá Vinstri grænum. (Gripið fram í.) Af þessum 27 milljörðum leggjast 1,4 milljarðar á Vestfirðinga og þar af leggjast 430 millj. kr. bara á Bolvíkinga, þ.e. 500 þús. kr. á hvern íbúa eða um það bil ein milljón á hvern vinnandi mann í Bolungarvík.

Eftirfarandi kemur fram í þeirri frétt í blaði allra landsmanna sem ég vitnaði til, með leyfi forseta:

„Lilja Rafney sagði að eðlilegt væri að Vestfirðingar borguðu til samfélagsins ef þeir vildu fá göng og vegi.“

Nú liggur fyrir að Vestfirðingar búa við mjög lélegar samgöngur og hafa verið að biðja um úrbætur þar á og bent þar á Dýrafjarðargöng. Má skilja það þannig að hér eftir verði einungis samgöngubætur á þeim stöðum þar sem veiðileyfagjald er innheimt? Þá kemur mér til hugar Reykjavík (Forseti hringir.) þar sem óverulegt veiðigjald verður innheimt. Munu þá ekki verða meiri vegaframkvæmdir í Reykjavík?