140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að benda hv. þingmanni á að Reykjavík er ein stærsta verstöð á landinu með mjög hátt hlutfall kvóta svo menn mega eiga von á miklum vegaframkvæmdum ef sú ósk hans rætist að auðlindarentan renni beint í vegagerð. Ég styð það að sú auðlindarenta sem innheimt verður fari vítt og breitt um landið til að bæta vegi og eru Vestfirðir þar fremst í flokki í mínum huga. En mér finnst ágætt að geta komið hingað til að ræða um auðlindarentuna því að búið er að snúa þeirri umræðu algerlega á hvolf og ekki rætt um afkomutengda auðlindarentu af umframhagnaði í greininni.

Sem betur fer hefur sjávarútvegurinn verið að gera það mjög gott frá hruni og það skýrir lágt gengi krónunnar og hátt afurðaverð. Það er mjög eðlilegt að þjóðin fái að njóta þess með því að fá þennan umframhagnað í formi auðlindarentu til sín, til samfélagslegrar uppbyggingar. Þá eru Vestfirðir auðvitað þar inni. Mogginn kann að snúa öllu á hvolf og lætur það líta þannig út að ég hafi sagt eitthvað á þann veg að Vestfirðingar greiddu ekkert til samfélagsins og að þeir fengju hugsanlega eitthvert fé í vegaframkvæmdir ef sjávarútvegurinn greiddi auðlindarentu, en það er bara ekki rétt haft eftir. Það er útúrsnúningur og er ljótt að vita hvernig þeir snúa alltaf út úr orðum fólks sér í hag.

En sjávarútvegurinn greiðir í dag 1 milljarð í tekjuskatt á ári að meðaltali síðustu tíu ár. Hverjar eru heildartekjur ríkissjóðs? Um 500 milljarðar. Setjið það í samhengi. Það væri fróðlegt að vita hversu háa upphæð starfsfólk í sjávarútvegi greiðir af tekjum sínum til ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Ég held að sjávarútvegur í landinu eigi að vera stoltur af því að geta greitt af umframhagnaði sínum til ríkisins en við eigum að horfa til skuldsettra (Forseti hringir.) útgerða og taka stöðu þeirra sérstaklega til greina (Forseti hringir.) ef menn geta sýnt fram á að hún sé vegna kvótakaupa.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á að þingmenn virði ræðutíma.)