140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að kveðja mér hljóðs undir þessum lið til að taka upp það mál sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa rætt, þ.e. frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem hefur um alllangt skeið verið eitt mesta þrætuepli og deilumál íslensks samfélags.

Það er að verða ljóst af þeim fjölda umsagna sem beinast hingað til nefnda Alþingis frá sveitarstjórnarmönnum Sjálfstæðisflokksins víða um landið og af málflutningi hv. þingmanna sjálfstæðismanna að það á að láta einskis ófreistað til að koma í veg fyrir að málið verði afgreitt í vor vegna þess að ef Sjálfstæðisflokknum tekst það hefur honum tekist að standa vörð um óbreytt kerfi í sjávarútvegi að mestu á þessu kjörtímabili. Það virðist vera markmiðið.

Ég skora á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að láta af útúrsnúningum og tilraunum sínum til að afvegaleiða þessa umræðu og taka efnislega umræðu um málið í þingsal og í nefnd og við förum yfir það með það sameiginlega markmið (JónG: Það er sveitarstjórn …) — hv. þm. Jón Gunnarsson hefur náð ágætistökum á því ræðuformi frammíkalli en vill kannski heyra hvað ég hef að segja — að gera kerfisbreytingar á lögum um stjórn fiskveiða án þess að ógna undirstöðuatvinnuveginum, án þess að umbylta greininni.

Væri það ekki verðugt markmið fyrir okkur öll á þessu þingi að freista þess sameiginlega og fara þá efnislega í málið frekar en „háeffa“ þessa umræðu eins og hér er verið að gera á forsendum þeirra örfáu útgerðarmanna sem kjósa að snúa út úr málinu eins og það liggur fyrir núna, að reikna það til og frá eins og gert var 2003, eins og gert var í fyrra og eins og verið er að gera tilraun til að gera aftur núna? Hér er áskorun (Forseti hringir.) um að menn fari í málefnalega og efnislega umræðu um málið og láti af þeim leiðindavinnubrögðum sem tíðkast hafa of lengi í þessum málum.