140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sjálfstæðisflokkurinn emjar eins og stunginn grís þegar til þess er ætlast að útgerðarmenn leggi almenningi til hluta af gríðarlegum hagnaði í sjávarútvegi. Það er þvættingur að veiðigjald á greinina eigi að nema 27 milljörðum kr. Það eru liðlega 4 milljarðar kr. sem hún á að greiða ár frá ári. Það eru innan við 10 kr. á hvert veitt kíló. Eigum við hér í þingsalnum að gráta öll saman yfir þeim skelfilegu álögum? Hvaða vitleysisumræða er þetta?

Gengi krónunnar er í sögulegum lægðum, afurðaverð mjög hátt og gríðarlegur hagnaður í sjávarútvegi. Við þær einstöku aðstæður verður til þess ætlast að hluta hins mikla umframhagnaðar verði, í slíkum góðærisárum, skilað í sameiginlega sjóði til þess að létta róðurinn með heimilunum í landinu og öðru atvinnulífi. Er það ósanngjarnt? Fjarri því. Það er fráleitt að halda því fram að það að leggja innan við 10 kr. á hvert veitt kíló í fast veiðigjald á útgerðina séu óhóflegar gjaldtökukröfur á greinina. Það er brotabrot af því sem menn eru að leigja þessar sömu heimildir á í viðskiptum sín á milli á frjálsum markaði.

En að störfum þingsins, það var nú meginerindi hingað í ræðustólinn að geta þess að við fjölluðum um skýrslu um lífeyrissjóðina í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fleiri nefndum þingsins í morgun. Ég held að sú mikla sorgarsaga leiði það vel í ljós að þar er nauðsynlegt fyrir okkur að efla aðhald og ekki síst lýðræðislegt aðhald og þá lýðræðislegt aðhald sjóðfélaganna sjálfra. Ég tek undir þær tillögur úttektarnefndarinnar að sjóðfélagar fái tækifæri til að kjósa beinni kosningu (Forseti hringir.) stjórnarmenn inn í sjóðina og að við hér í þinginu tökum þær tillögur til alvarlegrar athugunar.