140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða vanda hv. stjórnarliða með Sjálfstæðisflokkinn og velgengni hans í skoðanakönnunum. Ég ætla heldur ekki að ræða um sjávarútvegsmálin en minni á það að fyrir hv. atvinnuveganefnd liggja þrjú frumvörp um sjávarútveg, eitt frá mér og ég vil að menn skoði það líka.

Ég ætlaði að tala um Farice. Í fréttum í gær kom fram að ríkissjóður hefði bjargað Farice og gert við hann notendasamning til fjögurra eða fimm ára og þetta sé spurningin um 355 millj. kr. á þessu ári. Ég spyr, frú forseti: Hvernig getur það verið að menn uppgötvi allt í einu, bara núna, í apríl, að það er eitthvað að gerast með fjármál þessa fyrirtækis? Hvernig stendur á því að þegar fjárlög voru ákveðin — nú er það þannig að ríkissjóður á í gegnum Landsvirkjun og sjálfan sig meiri hluta í þessu fyrirtæki. Arion banki á ein 43%, ríkissjóður á 28% og Landsvirkjun 26%. Hvernig stendur á því að þetta opinbera fyrirtæki veit ekkert af því að það á að fara að loka netsambandi við útlönd og að ríkissjóður þurfi allt í einu að rjúka til í apríl, fjórum mánuðum eftir samþykkt fjárlagafrumvarps, og bjarga málum? Hvers lags fyrirhyggja er þetta eiginlega? Ég spyr hv. fjárlaganefnd: Var það rætt eitthvað í sambandi við fjárlögin að það ætti að fara að skuldbinda ríkissjóð til að bjarga netsambandi við útlönd?