140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Vegna umræðu hér um auðlindagjald, m.a. í sjávarútvegi, hefur sú umræða farið út um víðan völl og þarf nú meiri tíma en þær tvær mínútur sem ég hef til að setja það á málefnalegan grunn eins og hér hefur verið óskað eftir og hætta öllum útúrsnúningum. En það hefur komist til tals að leggja þurfi auðlindagjald á sjávarútveginn og orkuna og allar aðrar auðlindir. Þá vildi ég nefna hér líka ferðaþjónustuna og vildi í því samhengi minna á svar sem ég fékk vegna fyrirspurnar minnar um ríkisjarðir. Þar er víða rekin ábatasöm ferðaþjónusta og væri áhugavert að heyra skoðun hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Samfylkingarinnar á því hvort til standi að leggja auðlindagjald á ferðaþjónustuna sem er sannarlega að nýta auðlindir landsins.

Frú forseti. Nú styttist í vorþinginu og þessa dagana hellast yfir okkur stjórnarfrumvörp, bæði stór og smá, bæði vel og illa unnin. Sjávarútvegsfrumvarpið sem við erum með í atvinnuveganefnd er því miður seinna markinu brennt, þ.e. þar eru svo margir hlutir óunnir að svo virðist sem við þurfum að vinna það upp á nýtt og höfum til þess mjög skamman tíma.

Þegar maður fer hins vegar yfir málalista ríkisstjórnarinnar þá hefur ekkert komið hér fram sem við höfum verið að bíða eftir svo lengi, eins og um úrlausnir á skuldum heimila og fyrirtækja í landinu. Vildi ég þá minna á að við framsóknarmenn höfum lagt fram fjölmörg slík mál og eitt þeirra liggur hér inni, um verðtryggingu, sem væri, held ég, skynsamlegt að forseti setti á dagskrá.

Að lokum þetta: Vegna síendurtekinna árása Evrópusambandsins á hendur okkur Íslendingum vil ég segja að það ber enginn virðingu fyrir þeim sem ekki eru tilbúnir að verja hagsmuni sína og hagsmuni þjóðar sinnar. Ég man eftir hæstv. ráðherra sem sagðist ekki vera tilbúinn að kyssa á vönd kvalara sinna og ég held að við ættum öll að vera tilbúin til þess að taka undir þá yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra af öðru tilefni.