140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Öðruvísi mér áður brá þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kemur hér til að kveinka sér undan því að nú þurfi að láta hendur standa fram úr ermum og taka á mikilvægum viðfangsefnum í samfélaginu. Hann hefur ekki kvartað yfir því hingað til. Ég hef þekkt hann að því einmitt að vera ötulan og iðjusaman þingmann.

Hann ætti frekar að bretta upp ermarnar og taka á þeim fjölmörgu málum sem við er að glíma í samfélaginu og eru komin hér inn í þingið, bretta upp ermarnar og taka á með okkur í stjórnarliðinu og ráða fram úr þeim málum sem hér eru. Svo tala menn, virðulegur forseti, um verklausa ríkisstjórn og kvarta í hinu orðinu yfir því að það komi engin mál. Þetta gengur náttúrlega ekki upp, hv. þingmaður.