140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að hvetja hæstv. forseta til þess nú sem endranær að beita sér fyrir því að vinnubrögð í Stjórnarráðinu verði bætt, að koma þeim skilaboðum þangað að þau þurfi að bæta. Ég skil heldur ekkert í hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að láta það koma sér á óvart að málum sé þannig varið. Svona hefur þetta verið öll þau þing sem við höfum setið frá síðustu kosningum, málin koma hér inn allt of seint. Ég er sammála hv. þingmanni, það er algjörlega óþolandi þegar hlutirnir eru með þeim hætti sem hér er.

Við vitum, virðulegi forseti, að fyrir páska var atvinnuveganefnd atvinnulaus, það voru engin mál í nefndinni til að fjalla um vegna þess að þau höfðu ekki komið fram í þinginu. Þau höfðu ekki komið fram til að nefndin gæti nýtt þann dýrmæta tíma sem þá var. Nei, frumvörpin koma fram á síðustu metrunum og svo á að keyra þau í gegnum þingið, helst með einhverju offorsi og ofbeldi eins og venjan er. Það verður að sjálfsögðu ekki liðið núna. Það er engin hætta á því.

Ég hvet því hæstv. forseta til þess enn og aftur (Forseti hringir.) að hvetja forsætisráðherra, verkstjórann í ríkisstjórninni, til að breyta vinnubrögðunum.