140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra vísar hér, og það er raunar gert í greinargerð með þingsályktunartillögunni líka, til mikillar greiningarvinnu og alls konar skýrslna, vinnu, útreikninga, niðurstöðu samráðshópa og ég veit ekki hvað og hvað en ekkert af því birtist í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, fyrst þetta fylgir ekki með í þessu upphafi, að kallað verði eftir öllum þessum upplýsingum og farið vel yfir þær í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Auðvitað hefðu verið betri vinnubrögð að láta þau gögn sem eiga að liggja til grundvallar tillögunum fylgja með þingsályktunartillögunni. Það er venja þegar slíkar þingsályktunartillögur eru lagðar fram að öll gögn sem skipta máli varðandi þá niðurstöðu sem komist er að séu lögð fram. Það verður þá gert á síðari stigum en það setur okkur í svolítið sérkennilega stöðu í umræðunni hér í dag að hafa ekki þessi gögn fyrir framan okkur. Það er bara fullyrt að greiningarvinna hafi skilað hinum og þessum niðurstöðum en þingmenn eru ekki í aðstöðu til að meta það sjálfir.