140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi húsnæðismálin sem hv. þingmaður nefndi og spurningu um breytingar á því geri ég ráð fyrir að það muni ekki hafa mikinn kostnað í för með sér. Ég geri til dæmis ráð fyrir í sambandi við breytingarnar varðandi atvinnuvegaráðuneytið að það muni rúmast í sjávarútvegshúsinu og ég geri einnig ráð fyrir að þær breytingar sem verða varðandi fjármálaráðuneytið, þegar hluti af efnahagsráðuneytinu flyst þangað, að það muni rúmast á þeim stað sem fjármálaráðuneytið er núna þannig að þar er ekki mikil breyting á ferðinni.

Það er ljóst að ef ekki hefði verið ráðist í þessar breytingar á efnahagsráðuneytinu hefði þurft að fjölga verulega starfsfólki bæði í fjármálaráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og hafa menn metið þann kostnað á 50–100 milljónir því að þar þyrfti að bæta við a.m.k. fimm eða tíu starfsmönnum.

Verulegur sparnaður hefur orðið við þær sameiningar sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum þremur árum sem m.a. birtist í því (Forseti hringir.) að við höfum í meiri mæli getað ráðist í fækkun á stofnunum sem hefur (Forseti hringir.) fækkað mikið á þessu kjörtímabili og ég get farið yfir síðar í þessari umræðu.