140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst af öllu taka undir þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, að greinargerðin með þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er ærið rýr og er ástæða til að kalla eftir þeim gögnum sem hæstv. forsætisráðherra vísaði til og ættu að fylgja með þessu máli því að hér er mikið mál á ferðinni.

Ég held að það sé nauðsynlegt að inna hæstv. ráðherra eftir nánari svörum áður en umræðan heldur lengra um þýðingu nokkurra atriða sem standa í greinargerðinni þar sem rætt er um að þessar breytingar miði að því að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara. Það skýtur því nokkuð skökku við að færa t.d. stofnun eins og Hafró undir yfirstjórn tveggja ráðuneyta.

Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvað það þýðir sem kemur fram í greinargerðinni að þessar breytingar um fyrirhugaða sameiningu ráðuneytanna muni auka bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs þvert á atvinnugreinar, (Forseti hringir.) hvert innihaldið í þessari fullyrðingu sé, hvernig menn sjá þetta fullnustað.