140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þær hugmyndir sem lagðar eru fram varðandi breytingar á umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti séu mjög til bóta. Þetta gefur færi á því að tryggja miklu betur en mögulegt væri ella sjálfbærni sem við viljum náttúrlega sjá að því er varðar auðlindirnar. Ekki er verið að tala um yfirstjórn tveggja ráðuneyta því að stjórnskipulega mun Hafrannsóknastofnun heyra undir atvinnuvegaráðherra en það verður sameiginlegur vettvangur sem bæði þessi ráðuneyti koma að í þessu efni til að tryggja betur þá samhæfingu sem þarf að vera í þessum málum að því er varðar auðlindina og sjálfbærnina. Það eru auðvitað kostir sem tengjast jafnræði milli atvinnugreina og heildaryfirsýn á atvinnulífinu (Forseti hringir.) við þá leið sem við erum að tala fyrir og það er miklu betur hægt (Forseti hringir.) að nýta stoðkerfi fyrir atvinnulífið og koma á styrkari stjórnsýslu að því er varðar þessi veigamiklu (Forseti hringir.) atriði en ef málin væru í þeim farvegi sem þau eru núna.