140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Heldur þótti mér þetta rýrt varðandi hugmyndir um að formgera samstarfið á milli ráðherranna sem eiga samskipti. Ég hefði talið æskilegt að fyllri skýring fylgdi og útlistun á því með hvaða hætti menn sæju þetta samstarf ganga fyrir sig því að eins og allir þekkja er þetta einn af þeim þáttum sem verða hvað viðkvæmastir við sameiningu þeirra ráðuneyta sem fyrir eru.

Mér fannst hæstv. ráðherra heldur ekki skýra það nægilega vel hvað felist í þeim auknu möguleikum sem hér er ýtt undir að verði til við fullnustu þeirrar þingsályktunartillögu sem er lögð fram, hvað felist í möguleikum á auknu bolmagni til nýsköpunar. Er verið að gefa fyrirheit um aukna fjármuni eða er það fyrst og fremst innan stjórnsýslunnar sem menn ætla að auka þetta bolmagn sem svo er rætt um?

Mér þætti líka ágætt ef hæstv. ráðherra fjallaði í örstuttu máli um þetta aukna jafnræði atvinnugreina (Forseti hringir.) ef hún sér þess kost á þeim stutta tíma sem hún hefur til umráða.