140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú því miður ekki öðlast viðurkennt lækningaleyfi til að skyggnast inn í hugarheim vinstri grænna. Ég verð því að tala í getgátum um þær spurningar sem hv. þingmaður nefndi.

Ég vil samt byrja á að taka fram að í því bréfi sem ég vitnaði til frá 14. mars er því einmitt sérstaklega fagnað að uppstokkun hafi verið gerð á ríkisstjórninni og ég reikna með að mikill fögnuður hafi átt sér stað í Brussel þá. Það kemur óneitanlega fram í 24. lið að þessi samþykkt fagnar mjög þeim breytingum sem verið er að gera á Stjórnarráðinu.

Varðandi vinstri græna og Evrópusambandið, það er mér að sjálfsögðu jafnmikil ráðgáta og hv. þingmanni hvernig haldið er á þeim málum á þeim bænum. Ég undrast þó, núorðið sérstaklega, allan þann málflutning frá þeim varðandi gagnrýni á Evrópusambandið, hvernig það kemur fram við Íslendinga o.s.frv. Síðan finnst manni eins og það fylgi nú ekki mikill hugur máli.

Ég held því og er sammála hv. þingmanni um það að þegar í kosningar kemur verður þetta að sjálfsögðu mál sem verður mjög erfitt fyrir þann ágæta stjórnmálaflokk að gera upp við kjósendur sína, alla vega þá kjósendur sem eftir eru, vegna þess að þetta var að sjálfsögðu það mál sem var hvað heitast eða stærsta kosningamál flokksins á þeim tíma.

Það er ósköp eðlilegt að sjálfsögðu að velta þessu upp vegna þess að mín skoðun er sú að ein meginástæðan fyrir því að verið er að keyra í gegn þær breytingar á Stjórnarráðinu sem hér er verið að gera er vegna þess að Evrópusambandið leggur mikla áherslu á að Stjórnarráðið sem og aðrar stjórnsýslustofnanir séu tilbúnar þegar aðlögunarferlinu er lokið. Það kemur alls staðar fram í þeim gögnum sem við höfum séð, m.a. í þeim ágæta bæklingi sem Olli Rehn vinur okkar lét gera og er á netinu. Þar kemur skýrt fram hvernig þetta ferli er allt saman.