140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég hef kannski verið fullkröfuharður, ég skal viðurkenna það fúslega, að hv. þingmaður gæti útskýrt öll þau hliðarspor sem vinstri grænir hafa tekið gagnvart Evrópusambandinu, það er náttúrlega alveg kapítuli út af fyrir sig hvernig þeir þurfa að standa skil á því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem hann kom líka inn á í ræðu sinni, sem ég hef miklar efasemdir um og mun fara yfir í ræðu minni á eftir, það er þessi hringlandaháttur með efnahagsmálin, hvernig þeim er stjórnað. Það var fyrst í forsætisráðuneytinu, síðan ferð það inn í efnahags- og viðskiptaráðuneytið, svo fer það aftur núna í þriðja hringinn á þeim þremur árum sem ríkisstjórnin er búin að sitja. Ég hef af þessu verulegar áhyggjur, ekki síst vegna þess að við eigum eftir að ná tökum á fjárlagahalla ríkissjóðs, það liggur alveg klárt fyrir. Þar eru mörg verkefni óleyst og við eigum eftir að ná niður fjárlagahallanum og ná tökum á honum sem er náttúrlega eitt mikilvægasta málefnið.

Ef ég man rétt kom það klárlega fram í samstarfssamningi ríkisstjórnarflokkanna að efla einmitt viðskiptaráðuneytið. Það er eitthvað sem við hefðum átt að læra af bankahruninu, að reyna að samhæfa þetta betur. Það var markmiðið með því að fara í þessar breytingar. En nú á enn að fara að breyta. Það virðist engin heildaryfirsýn eða stefna vera. Hún breytist bara liggur við frá mánuði til mánaðar eða frá ári til árs. Það er engin heildaryfirsýn yfir þau málefni sem þar eru. Fyrir utan síðasta ráðherrakapalinn sem blasti við manni um síðustu áramót, og hv. þingmaður benti á að Evrópusambandið hefði fagnað, þá var það náttúrlega fyrir okkur hv. þingmenn alveg hreint með ólíkindum hvernig það var, að þáverandi hæstv. efnahagsráðherra, núverandi hv. þm. Árni Páll Árnason, skyldi vera dreginn inn í þá senu að vera hent út í leiðinni til þess að losna við hv. þm. Jón Bjarnason. Það var alveg með eindæmum vegna þess að hv. þingmaður sem var þá starfandi efnahags- og viðskiptaráðherra hafði einmitt farið inn á þær brautir eftir síðustu höfnun á Icesave-samningunum að starfa með og upplýsa stjórnarandstöðuna um það hvar málið var statt og hafði (Forseti hringir.) samstarf og samstöðu um það til þess að ná þverpólitískri sátt um hvernig ætti að vinna að því máli. (Forseti hringir.) En þetta voru örlögin og þakkirnar.