140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að breyting var gerð á frumvarpinu um Stjórnarráð Íslands, sem fól það í sér að koma skyldi með málin inn í þingið í formi þingsályktunartillögu, var einfaldlega sú að þingið taldi sig eiga erindi inn í þá umræðu sem ríkisstjórnin vildi setja á dagskrá varðandi breytingar á Stjórnarráðinu. Þess vegna dugar auðvitað ekki að koma með málin þannig inn í þingið að það sé algerlega óljóst hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Þegar hæstv. umhverfisráðherra segir hér að rannsóknir og ráðgjöf eigi að fara undir umhverfisráðuneytið, hvað þýðir það á mæltu máli? Þýðir það að stofnanir á borð við Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun fari frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins? Þetta er einföld spurning og það hlýtur að vera hægt að svara henni. Ég virði það út af fyrir sig að það þurfi að hafa samráð við starfsfólkið og það ber auðvitað að gera. Það samráð hlýtur að vera hafið. Menn hljóta að hafa rætt þessi mál. Ef menn hafa ætlað að koma hér með viti bornar tillögur hljóta þeir að hafa rætt þetta við þá sem við eiga að búa og þekkja best til. Það samráð hlýtur að vera hafið. Ég trúi því ekki að ekki sé hægt að upplýsa svo einfaldan hlut og þann hvort það þýði á mæltu máli, (Forseti hringir.) ef færa á rannsóknar- og ráðgjafarstarfsemina undan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og inn í umhverfisráðuneytið, að verið sé að færa þessar stofnanir í heilu lagi á milli ráðuneyta.