140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ekki eru beinlínis reistar skorður við því í lögum að umhverfisráðuneytið setji viðmið um sjálfbæra nýtingu. Hins vegar hlýtur það að styrkja viðkomandi ráðuneyti umtalsvert ef þess sér sérstaklega stað í lögum og í regluverkinu utan um viðkomandi ráðuneyti að til þess sé ætlast að því er varðar allar þær auðlindir sem íslenskt samfélag hefur yfir að ráða. Það er fyrst og fremst þannig sem ætlað er að búa um þau mál.

Varðandi orð hv. þingmanns um mikilvægi þess að öll gögn fylgi með og þær greinargerðir og greiningar sem vísað er til finnst mér algerlega einboðið að nefndin sem fær þingsályktunartillöguna til afgreiðslu fái öll þau gögn sem fyrir liggja. Þau eru ærin og ítarleg því að eins og fram hefur komið hafa þessi áform verið alllengi í pípunum (Forseti hringir.) og ég vonast til þess að Alþingi veiti þeim brautargengi.