140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan er farin að þróast með mjög sérkennilegum hætti. Ég kom til þessarar umræðu til að reyna að átta mig á því hvað væri í raun verið að leggja til með þeirri þingsályktunartillögu sem er á dagskrá og okkur er ætlað að ræða.

Það er ekki að finna mikið bitastætt í greinargerðinni til þess að undirbyggja umræðuna. Hæstv. forsætisráðherra kom aðeins til hjálpar með ræðu sinni áðan en allt sem hefur síðan gerst hefur orðið þess valdandi að mér finnst myndin verða stöðugt óljósari. Það er eins og þeir sem tala eiga um þetta mál og tala fyrir málinu, eins og hæstv. forsætisráðherra og alveg sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra sem ég óska eftir að sitji hér og hlusti á þessa ræðu — hæstv. umhverfisráðherra fer í kringum umræðuna eins og köttur í kringum heitan graut. Þegar spurt er að ákveðnum hlutum eru settar á undarlegar ræður með frösum sem verða hálfillskiljanlegir. Þá er sagt að menn séu að bíða eftir að fá þetta í einhverjum teskeiðum þegar verið er að spyrja eftir einföldum hlutum eins og þeim hvar vista eigi heilu stofnanirnar, grundvallarstofnanir, til dæmis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Hafrannsóknastofnun. Þá er þessum stofnunum líkt við einhvers konar teskeiðar. Ég kalla einfaldlega eftir því að það sé skýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar með hvaða hætti ætlunin sé að ganga fram með þeirri þingsályktunartillögu sem hér um ræðir. Það dugar ekki að tala eins og einhver véfrétt frá Delfí þegar við erum að tala um sjálft Stjórnarráð Íslands. Við verðum að gera þá einföldu kröfu að þegar þessari umræðu lýkur sé myndin orðin nokkurn veginn skýr um á hvaða ferðalagi ríkisstjórnin er, hvort sem það er einhver óvissuferð eða eitthvað annað. Við vitum þá að minnsta kosti hvort um er að ræða óvissuferð sem enginn veit hvernig endar eða út á hvað hún gengur yfir höfuð. Það er ekki verið að fara fram á mikið þegar beðið er um að þessi mál séu skýrð fyrir okkur.

Hæstv. umhverfisráðherra talaði um að gott væri að umræðan væri uppbyggileg. Ég mundi svo sannarlega vilja að þessi umræða gæti verið uppbyggileg en þá verður umræðugrundvöllurinn, sjálft þingskjalið sem hér er, að vera af þeim toga að það sé skiljanlegt fyrir aðra en þá sem eru innmúraðir og innvígðir inn í stjórnarsamstarfið og skilja þá frasa og Kremlarlógíu sem liggur greinilega hér að baki.

Eins og við vitum er þessi þingsályktunartillaga flutt vegna þess að hæstv. forsætisráðherra var á sínum tíma gerð afturreka með þær hugmyndir sem hún lagði af stað með um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Í upphafi var ætlunin að gera það þannig að hægt væri að gera þetta með einföldum forsetaúrskurði þar sem hæstv. forsætisráðherra hefði öll völd í höndum sér varðandi þær breytingar sem hún vildi gera á Stjórnarráðinu. Því var mætt af mikilli hörku og andstöðu í þinginu, sérstaklega af stjórnarandstöðunni en líka einstökum stjórnarliðum. Það varð þess valdandi að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki lengur vald á málinu og neyddist til að gefa eftir. Hún gaf eftir með þeim hætti að sett var breyting inn í frumvarpið sem fól það í sér að þegar ríkisstjórnin hefði komið sér saman um tilteknar breytingar á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins yrði að leggja það fram í formi þingsályktunartillögu sem Alþingi tæki afstöðu til og sem kæmi til umræðu og afgreiðslu þar áður en forsetaúrskurður væri gefinn út. Þannig hljóða lögin eins og þau eru í dag. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra vildi ekki vera í þeim sporum sem hún er stödd í í dag, að þurfa að mæla fyrir þessu máli og reyna að útskýra það sem ætlunin er að gera. Það er ljóst mál að Alþingi ætlaðist til þess með því að gera þessar breytingar á lögunum að þær breytingar sem áformaðar væru af hálfu hæstv. ríkisstjórnar væru þá ærlega kynntar fyrir þinginu en ekki að menn færu eins og köttur í kringum heitan graut og svöruðu ekki einföldum spurningum. Við hljótum að kalla eftir því að mál séu kynnt með skilmerkilegri hætti. Það er ekki boðlegt að við getum ekki tekið almennilega efnislega afstöðu til málsins meðan það er svona óljóst.

Ég tók áðan sem dæmi það ákvæði sem getur að líta í athugasemdunum við þessa þingsályktunartillögu þar sem farið er yfir hvernig gera eigi breytingar sem lúta að nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti þar sem því eru færð einhver tiltekin verkefni að því er okkur er tjáð. Það er orðað með þeim hætti að það er algerlega útilokað að maður geti áttað sig á því hvað þar er á ferðinni.

Nú vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er viðstaddur umræðuna og ég treysti að geti svarað þessu skilmerkilega: Hvað er verið að tala um? Eru menn að tala um að færa heilu stofnanirnar á borð við Hafrannsóknastofnun eða Veiðimálastofnun undan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti? Það hlýtur að vera slík grundvallarspurning sem lýtur að meginþáttum varðandi auðlindanýtingu okkar að menn hljóta að hafa svör á hraðbergi um þessa hluti. Það er auðvitað augljóst að málið getur ekki verið afgreitt úr þinginu nema svona hlutir séu vel skoðaðir og að rækilega gerð grein fyrir því hvaða fyrirætlanir eru á ferðinni.

Það er mjög margt sem vekur athygli í þessu máli, meðal annars þeir mörgu hringsnúningar sem ríkisstjórnin hefur farið í öllu því sem lýtur að uppbyggingu og uppstokkun Stjórnarráðsins. Það þarf ekki annað en lesa í gegnum stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingarinnar til að sjá það. Ef við skoðum til dæmis kafla sem heitir Stjórnkerfisumbætur er þar talað um að í nýju efnahags- og viðskiptaráðuneyti verði almenn hagstjórn, lagaumgjörð og eftirlit með fjármálamarkaði, mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og að enn fremur verði þar málefni er tengjast umgjörð íslensks viðskiptalífs. Síðan var það margfaldlega áréttað, meðal annars af hæstv. forsætisráðherra, að með þessum hætti væri verið að búa til einhverja nýskipan varðandi stjórn efnahagsmála.

Hvað er síðan gert? Jú, þá byrjar reiptog innan ríkisstjórnarinnar sem allir sáu og gerðist að hluta til fyrir opnum tjöldum rétt í kringum aðventuna. Þá urðu þar breytingar. Einnig var gert ráð fyrir því í þessum stjórnarsáttmála að fjármálaráðuneytið hefði mjög afmarkað hlutverk sem er nánar gerð grein fyrir í stjórnarsáttmálanum. Nú er greinilega verið að snúa því öllu á haus, verkefni eru tekin frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, sem átti að vera burðarráðuneyti í ríkisstjórn eins og hæstv. forsætisráðherra vildi sjá það, og það bútað niður í frumeindir og fært inn í önnur ráðuneyti. Það er það sem er í raun verið að gera. Hæstv. ráðherra segir að það byggi á einhverri faglegri greiningu, greiningarvinnu og faglegri athugun.

Þá spyr ég: Lá þá engin slík fagleg greining eða undirbúningur til grundvallar því þegar menn skrifuðu þennan stjórnarsáttmála? Var ekkert slíkt á ferðinni þegar hæstv. forsætisráðherra mælti í fyrsta, annað og þriðja sinn fyrir breytingum sínum sem hún boðaði varðandi Stjórnarráðið og var jafnoft gerð afturreka með að hluta til eða að öllu leyti? Hvað var á seyði? Var það bara gert út í loftið? Höfðu menn látið sér detta í hug einhverjar hugmyndir, skrifað þær á blað og sagt að þetta væru stjórnkerfisumbætur? Hvaða greiningarvinna er þetta? Hverjir unnu þessa greiningarvinnu? Af hverju er ekki hægt að gera grein fyrir því almennilega í athugasemdum við þingsályktunartillöguna? Er það eitthvað sem hæstv. ráðherra ætlar að draga upp úr sínum stóra hatti og skella inn í þá þingnefnd sem hefur með málið að gera? Er þetta eitthvert leyndarmál? Þarf alltaf að kalla eftir öllum slíkum upplýsingum úr ræðustól Alþingis? Af hverju er það ekki uppi á borðum, hæstv. forsætisráðherra?

Í því sambandi vil ég vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir því að enn og aftur eigi Seðlabanki Íslands að leggja upp í ferðalag. Þegar hæstv. ríkisstjórn tók við heyrði Seðlabankinn undir forsætisráðuneytið. Á því var gerð breyting í anda þeirra breytinga sem kynntar voru á Stjórnarráðinu þegar sagt var að mikilvægt væri að efla sérstaklega efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Hvernig átti að gera það? Meðal annars með því að setja þessa burðarmiklu stofnun, Seðlabanka Íslands, undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Svo eftir allt þetta japl, jaml og fuður um áramótin er skyndilega snúið við blaðinu, farinn enn einn kollhnísinn í málinu og Seðlabankinn sendur í ferðalag og á núna að færast upp í fjármálaráðuneyti eftir því sem mér skilst.

Nú skulum við velta einu fyrir okkur: Er það ekki hluti af þeim trúverðugleika sem við þurfum að byggja upp gagnvart umheiminum að þessi umgjörð sé býsna klár og ljós, að menn upplifi ekki þann hringlandahátt sem birtist okkur sannarlega í þessum efnum?

Ég vil að lokum spyrja, af því að tími minn er illu heilli að verða búinn: Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til þar sem Fjármálaeftirlitið verður vistað í einu ráðuneyti og Seðlabankinn í öðru, má þá skilja það sem svo, hæstv. forsætisráðherra, að ríkisstjórnin hafi endanlega horfið frá öllum hugmyndum um að sameina þessar tvær stofnanir?