140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt mál sem liggur hér undir og tími naumt skammtaður og ég mun því reyna að einskorða mig við aðalatriði málsins.

Ég vil fyrst segja að almennt séð er auðvitað ekki góður bragur á því að hringlað sé með verkaskiptingu í Stjórnarráðinu nema að vel athuguðu máli. Það skiptir sérstaklega máli þegar liðið er á kjörtímabil og núna er tæpt ár til þingkosninga og þær breytingar sem hér er rætt um eiga að taka gildi hálfu ári fyrir þingkosningar. Þá skiptir auðvitað máli að ekki sé tjaldað til einnar nætur og breytingarnar byggi þar af leiðandi á einhverri efnislegri greiningu sem sómi er að.

Að því er varðar breytinguna á auðlindaráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti byggjum við á víðtækum greiningum eins og kom vel fram í ágætri ræðu hæstv. umhverfisráðherra áðan og hægt að segja að málið hafi verið þrautkannað og útfært ítarlega. Breytingin að því er varðar efnahags- og viðskiptaráðuneytið hins vegar og uppskiptingu þess og niðurlagningu er óunnin, órædd nokkurs staðar utan ríkisstjórnarinnar sjálfrar og órökstudd. Það sem mér finnst verst er að þar er skautað fram hjá öllum lærdómum sem við ættum að draga af nýafstöðnu hruni. Við veigrum okkur einfaldlega við að draga einhverjar ályktanir af þeirri alvarlegu lífsreynslu sem við höfum gengið í gegnum. Það er mjög mikið áhyggjuefni.

Í stjórnarsáttmálanum er fjallað um samstillta hagstjórn, um að færa skuli á einn stað yfirstjórn efnahagsmála og fjármálamarkaðarins til að tryggja fullnægjandi yfirsýn. Ástæðan er auðvitað sú að við höfum fyrir því áratugareynslu að átaksverkefni, atvinnusköpun og meintir lífshagsmunir grundvallaratvinnuvega hafa alltaf rutt heildarhagstjórn í landinu til hliðar. Það er nóg að lesa Benjamín Eiríksson, Jónas heitinn Haralz og Gylfa Þ. Gíslason til að sjá að flokkapólitíkin og kosningaloforðahefðin hefur leitt til þess að við höfum ekki beitt hagstjórnartækjunum af eindrægni heldur beitt mörgum mismunandi markmiðum sem alltaf endar með því að engum markmiðum er náð. Við sáum alvarleg teikn um þetta á síðustu árum þegar Seðlabankinn hækkaði vexti til að halda aftur af verðbólgu og ríkið kynti á sama tíma undir þenslu með skattalækkunum og útgjaldaaukningu. Það var auðvitað þetta vandamál sem reynt var að takast á við samhliða því að menn sáu hvað fjármálamarkaðurinn og útþensla hans gat haft alvarleg áhrif á efnahagslegan stöðugleika í landinu í heild sinni. Það var verið að takast á við þá stöðu með því að færa á einn stað hagstjórnina og regluverk fjármálamarkaðarins.

Það sem blasir við þegar horft er yfir þetta er að fjármálaráðuneytið hefur hingað til aldrei getað gegnt þessu hlutverki. Það vantar algerlega einhverja umfjöllun um það hér af hverju er verið að hvika frá þeirri hugmynd og þeim efnisrökum sem sett hafa verið fram um mikilvægi ráðuneytis almannahagsmuna eins og efnahagsráðuneytið átti að vera, ráðuneyti sem færi með almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni einstakra atvinnugreina. Það er ekkert fjallað um kosti eða galla þeirrar hugmyndar og satt að segja er rökstuðningurinn fyrir þessari breytingu með því allra rýrasta sem sést hefur, held ég, í sögu breytinga á Stjórnarráðinu, rétt röskar tvær blaðsíður og engin efnisleg greining sett fram. Hins vegar er verið að snúa algerlega frá þeirri stefnu sem gefin var upp í stjórnarsáttmála og fyrri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og auðvitað þeim forsendum sem ég vann eftir í starfi mínu sem efnahagsráðherra.

Það er auðvitað líka eðlilegt að fjalla með einhverjum hætti um þá staðreynd að verið er að taka samkeppnismálin og setja til atvinnuveganna. Það er ekki alveg einhlítt að samkeppnismálin eigi að vera þar og margt sem mælir með því að til sé ráðuneyti almannahagsmuna þar sem samkeppnismálin eru undir vegna þess að þau eru í eðli sínu auðvitað hömlur á atvinnugreinarnar hverja um sig. Þó eru dæmi um það frá öðrum löndum að samkeppnismálin séu í atvinnuvegaráðuneyti.

Eina efnisröksemdin sem hægt er að finna í greinargerðinni er sú að það muni kosta að efla efnahagsráðuneytið þannig að það ráði við verkefni sitt. Auðvitað, af því að það hefur aldrei verið fjármagnað. Sem efnahagsráðherra bað ég margoft um fjárveitingar til að menn gætu staðið við þau metnaðarfullu markmið um samstillta hagstjórn sem fólust í stjórnarsáttmálanum. Ég bað margsinnis um fjármagn til að geta mannað ráðuneytið þannig að við gætum sinnt því að búa til þá efnahagsáætlun sem okkur var falið að gera, þannig að það á eftir að fjármagna efnahagsráðuneytið. Auðvitað mun það kosta. En mun þá ekkert kosta að byggja upp þá getu í fjármálaráðuneytinu eða er stefnan sú að hætta bara við samstillta hagstjórn? Hvar er kostnaðargreiningin fyrir því að byggja upp þessa getu í fjármálaráðuneytinu? Án þess að sjá þá kostnaðargreiningu og bera hana saman við að byggja upp getuna í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er ómögulegt að taka afstöðu til málsins. Engin kostnaðargreining hefur verið sett fram um hver kostnaðurinn verður af því að byggja upp þetta verkefni innan fjármálaráðuneytisins.

Hver verður kostnaðurinn af því að slíta málaflokkana sundur? Hver verður kostnaðurinn af því að skipta ráðuneytinu upp með þeim hætti að fjármálamarkaðurinn verði í einu ráðuneyti og efnahagsmálin í öðru? Hver verður kostnaðurinn af samstillingunni þar á milli? Ef leggja á niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið og rök eru komin fyrir því tel ég einboðið að allir þættirnir, ef frá eru taldir verslun og viðskipti í þröngum skilningi, fari yfir í fjármálaráðuneytið. Það er algerlega fráleitt að fara þá leið sem hér er lögð til, að taka regluverk fjármálamarkaðarins og hafa það í atvinnuvegaráðuneytinu en hagstjórnina í fjármálaráðuneytinu. Það er með öðrum orðum verið að taka algera U-beygju frá því sem lagt var upp með í upphafi þessarar ríkisstjórnar þegar sagt var að mikilvægasti lærdómurinn af hruninu væri að hafa regluverk fjármálamarkaðarins og hagstjórnina á einum stað. Það var tillaga Kaarlos Jännäris. Hér er verið að ganga algerlega burt frá því verkefni og slíta það í sundur. Seðlabankinn á að vera á einum stað, Fjármálaeftirlitið á öðrum. Það á sem sagt að endurvekja togstreituna milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Hverjir eru lærdómarnir af hruninu? Það er togstreitan milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Menn vildu ekki deila upplýsingum og áttu erfitt með það, að hluta til vegna þess að þeir heyrðu undir ólík ráðuneyti. Hér á að endurvekja það.

Það er með ólíkindum að sjá svona víðtækar breytingar settar fram án nokkurs efnislegs rökstuðnings og án þess að menn geri minnstu tilraun til að draga ályktanir af nýafstöðnum áföllum sem yfir okkur hafa dunið. Þessi tillaga um að slíta fjármálamarkaðinn og regluverk hans frá afgangnum af hagstjórninni er algerlega órökstudd. Hún gengur gegn tillögum Kaarlos Jännäris og það fáránlegasta af öllu er að hér er nýbúið að leggja fram ágæta skýrslu um framtíð fjármálamarkaðar og á grundvelli hennar er búið að skipa starfshóp þriggja sérfræðinga, þar á meðal Kaarlo Jännäri, til að fjalla um framtíðarumgjörðina, meðal annars um möguleika á breytingu á stofnanaumgjörðinni og möguleika á sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. En nú er bara ákveðið að slíta þetta allt í sundur að óathuguðu máli. Hvers konar vinnubrögð eru það þegar engin efnisleg röksemd er fyrir þessu sett?

Sú litla greining sem liggur fyrir og ég hef séð er örstutt skýrsla, sem varla er hægt að kalla skýrslu, frá þremur sérfræðingum. Þar er það greint að vissulega þurfi að auka framlög til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins ef það eigi að geta unnið vinnuna sína. Hin leiðin sé að færa þetta yfir í fjármálaráðuneytið en það er sérstaklega varað við því að slíta fjármálamarkaðinn frá efnahagsstjórninni og sagt að ókostirnir við þá leið séu meiri en kostirnir.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er auðvitað sú að hér er algerlega horft fram hjá lærdómum af hruninu. Málið er vanreifað og órökstutt og það er algerlega óútfært hvaða ávinningi eigi að ná. Þvert á móti er gengið gegn grundvallarlærdómum af hruninu og verið að endurvekja togstreitu, hættu milli ólíkra eftirlitsstofnana sem fara með ólíka þætti sem saman verka til að auka áhættu í hagkerfinu.

Það er líka ljóst að þetta gengur gegn stjórnarsáttmálanum þannig að ég efast um umboð ríkisstjórnarinnar til að leggja þetta fram. Þetta gengur gegn þeim markmiðum um samstillta hagstjórn sem við höfum viljað hafa í heiðri. Ég tel augljóst að bíða beri niðurstöðu þeirra þriggja sérfræðinga sem búið er að fá til verka, og ég hrósa eftirmanni mínum í stóli efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að halda kúrs í því efni og standa við þá samninga sem búið var að gera við þá menn og bjóða þeim til verka. Þeir munu skila áliti í haust og full ástæða er til að bíða eftir niðurstöðu þeirra enda munu þessar tillögur að óbreyttu taka gildi í haust, hálfu ári fyrir kosningar. (Forseti hringir.) Það er ómögulegt að róta svo í grundvallarforsendum hagstjórnar í landinu eins og hér er gert ráð fyrir án nokkurrar undangenginnar greiningar.