140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst svara þeirri spurningu hvort þetta hafi verið rætt í ríkisstjórn þegar ég var ráðherra. Svo var ekki. Það var aldrei hvikað frá því að byggja þyrfti upp efnahagsráðuneytið. Það voru auðvitað alltaf sjónarmið um það hvort færa ætti það yfir í fjármálaráðuneytið eða annað slíkt en unnið var á þeirri forsendu að byggja efnahagsráðuneytið upp. Hins vegar, eins og ég sagði, fengust ekki auknar fjárheimildir og aukinn mannafli til að sinna þeim verkefnum sem var óhjákvæmilegt að þyrfti til að efnahagsráðuneytið gæti gegnt nýju hlutverki í annars konar hagstjórnarumhverfi.

Þetta var sem sagt ekki rætt í minni tíð í ríkisstjórn og hugmyndir um einhvers konar uppskiptingu ráðuneytisins eru því til komnar og voru í sjálfu sér fyrst viðraðar í tengslum við breytingar í ríkisstjórn um síðustu áramót.

Ég get líka staðfest að það hefur aldrei verið rætt efnislega í þingflokki Samfylkingarinnar hvaða mál ætti að leggja hér upp með. Þessi tillaga hefur verið lögð fram sem niðurstaða en engin efnisleg umræða hefur farið fram, hvorki í þingflokknum né innan Samfylkingarinnar, á vettvangi flokksins, um að breyta frá þeirri stefnumörkun sem fólst í þeim stjórnarsáttmála sem flokkurinn samþykkti.

Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki hvers vegna menn snúa núna frá tillögum Jännäris og vilja hafa Fjármálaeftirlitið á einum stað og afganginn af hagstjórninni á öðrum stað. Mér finnst þvert á móti að hitt hafi gengið frekar vel. Hvort það eigi að ganga alla leið og sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka, til eru ólík sjónarmið um það, en í öllu falli gekk samstarfið vel, a.m.k. get ég borið vitni um það að í minni tíð í efnahagsráðuneytinu gekk vel að hafa traust samstarf milli stofnananna og hluti af því var auðvitað að þær sendu skýrslur til eins og sama ráðherrans. Það var ekki togstreita á milli ráðuneyta þegar stofnanirnar voru annars vegar, menn þar vissu að við einn og sama ráðherra var að eiga (Forseti hringir.) þó að þær væru sjálfstæðar í störfum sínum.