140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þegar orðið ljóst, svo snemma í umræðunni og reyndin er, að í orðum hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag fólst beiðni til stjórnarandstöðunnar um að styðja þetta mál þar sem ekki væri meiri hluti fyrir því í stjórnarflokkunum. Hv. þm. Árni Páll Árnason lýsti því yfir að hann styddi ekki þetta mál hvað varðaði þann þátt sem hann fjallaði um og hv. þm. Jón Bjarnason hefur margoft lýst því yfir að hann styðji ekki þær stjórnarráðstillögur sem komið hafa frá forsætisráðuneytinu á liðnum missirum.

Ég vil spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að nú er langt liðið á kjörtímabilið eins og hann kom inn á síðasta andsvari sínu, og við erum að fara í stjórnkerfisbreytingar að því er virðist vera eingöngu vegna formsins og ekki vel ígrundaðar breytingar, í það minnsta ekki að mati þingmannsins hvað varðar efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka, hvort þá sé ekki gersamlega frumskylda að hafa víðtækt samráð við alla aðila til að formbreytingin sé ekki eingöngu gerð fyrir þá sem eru að breyta forminu en hafi engin áhrif á stjórnkerfi Íslands, hvorki á þessu ári vegna þess að tíminn er orðinn of knappur né heldur til lengri tíma.

Í þingmannanefndinni haustið 2010 var samþykkt að gera stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum eftir hrun til að athuga hvort þær stofnanir hefðu fengið þau tæki og tól sem til þyrfti, hvernig þær störfuðu og leggja eftir það mat á hvort þær ættu að starfa saman eða í sundur og þá hvar. Ég vil því einnig spyrja hv. þingmann hvort það hefðu ekki verið rétt vinnubrögð að byrja á því, í staðinn fyrir að hræra látlaust í ráðherrum og ráðuneytum.