140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga var samþykkt til framlagningar í þingflokki Samfylkingarinnar og ég gerði við hana fyrirvara. Ég er þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag sé ágætt, að þetta sé þingsályktunartillaga. Það má spyrja: Er þetta of mikið valdaframsal að það sé eftir sem áður hægt að breyta þessu? Ég segi þá á móti: Viðkomandi ríkisstjórn verður bara dæmd af því.

Ég verð að segja eins og er að það sem lagt er upp með hér af hálfu ríkisstjórnarinnar er framlag ríkisstjórnar sem er búin að gefast upp á verkefninu um samstillta hagstjórn og er algjörlega ráðlaus gagnvart því hvernig hún ætlar að koma því í höfn. Það er framtíðarsýn sem ég get ekki sætt mig við.

Hv. þingmaður nefnir réttilega að í greinargerð sé vísað til þess að það sé til athugunar að setja líka upp einhvers konar ráð sérfræðinga og það gæti verið einhvers konar vísra manna ráð eða slíkt, eins og er í Danmörku, sem gegni ákveðnu hlutverki svipuðu því og Þjóðhagsstofnun gerði, að vera gagnrýnandi á efnahagsstefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Það breytir því ekki að einhver þarf að fara með hagstjórn í landinu, það er lærdómur hrunsins að það þurfi hagstjórn í landinu. Það er verið að brjóta niður það hlutverk án þess að útfæra hvernig eigi að gera það á nýjum stað, og það er verið að segja að það eigi að vera hægt að gera það á nýjum stað án þess að kosti nokkurn skapaðan hlut. Það er bara sýn á samstillta hagstjórn og verkefni stjórnvalda við hagstjórn sem er á engan hátt boðleg, á engan hátt ásættanleg og ég get ekki skrifað upp á.