140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki skilið ráðherra öðruvísi en að færa ætti stofnunina undir eitthvert annað ráðuneyti. Það hefur komið fram að bíða á eftir einhverri umfjöllun frá Vísinda- og tækniráði, hvað sem manni finnst svo um þær tillögur sem koma þaðan.

Síðan vil ég spyrja um tvennt. Í fyrsta lagi hefur hv. þingmaður Vinstri grænna, Jón Bjarnason, lýst því yfir að að baki þessara breytinga standi krafa Evrópusambandsins um að sameina þessi ráðuneyti. Er hæstv. ráðherra sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni um það?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Úr því að ráðherrann lagði mikla áherslu á það sem þingmaður árið 2007 að um ákvarðanir og breytingar, líkt og þessar sem hér eru, yrði haft þverpólitískt samráð. Það má lesa í ræðum hæstv. ráðherra fluttar á þeim tíma. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna var ekki haft þverpólitískt samráð um þær tillögur sem voru lagðar fram í upphafi um þetta mál?