140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins bæta við varðandi það að á vegum Vísinda- og tækniráðs og reyndar fleiri aðila hefur verið unnin heilmikil og gagnleg vinna þar sem menn hafa verið að skoða bæði rannsóknarumhverfið og háskólaumhverfið. Þar eru ýmsar hugmyndir á lofti um það hvernig við ættum að skipa þeim málum, Íslendingar. Það þarf bara að skýrast hvernig með það verður farið. Hafrannsóknastofnun er auðvitað mjög nátengd greininni og rannsóknir unnar mikið í samstarfi innan hennar þannig að það eru líka sterk rök fyrir því að hún sé sem slík þar sem hún er.

Varðandi breytingar innan Stjórnarráðsins á Íslandi og Evrópusambandið þá kemur það þessu máli bara ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt á það minnst að þeir skiptu sér af því enda kæmi þeim það ekkert við hvort sem er. Við erum að endurskipuleggja okkar Stjórnarráð og móta framtíðaráherslur um skipan þess og það er alfarið okkar mál og það getur enginn sýnt fram á að það komi öðrum við né að það hafi verið þannig. Ég þekki ekki til þess enda mundi það engu máli skipta, ekki neinu. Við gerum það sem við viljum í þessum efnum, við ráðum því sjálf. (Gripið fram í: Er það?) Að sjálfsögðu. (Forseti hringir.) Hvers konar kjaftæði er þetta? Þetta er svo barnaleg þvæla (Forseti hringir.) þegar menn eru komnir út í svona rugl.

Jú, þverpólitískt samstarf. Það er alltaf betra ef hægt er að (Forseti hringir.) ná breiðari samstöðu um hlutina enda hefur þetta verið (Gripið fram í.) talsvert rætt hér á þingi. (Gripið fram í.)