140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið staðfest í andsvörum hæstv. ráðherra það sem hv. þm. Árni Páll Árnason fór yfir í ræðu sinni áðan. Þetta mál er óreifað, það er ekki búið að vinna þá vinnu sem þarf að vinna áður en menn fara í þessar breytingar.

Hæstv. ráðherra gat einfaldlega ekki svarað þeirri spurningu hvort Hafrannsóknastofnun yrði áfram undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eða auðlindaráðuneytinu. (Efnahrh.: Jú.) Nei, þú svaraðir því að menn væru að bíða eftir niðurstöðum einhvers vísindaráðs. Auðvitað á að vinna með þeim hætti að hæstv. ráðherra eigi að geta svarað því hvar stofnunin á að vera því að lögin eiga að taka gildi 1. september. Þetta er nú ekki flókið, þannig að það sjást langar leiðir vinnubrögðin í þessu máli.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, hann kom inn á það í ræðu sinni þegar hann færði rök fyrir þessari sameiningu ráðuneyta eða ráðuneytisbreytingu, hvað það hefur að gera með sjálfbæra nýtingu auðlinda og hann nefndi sérstaklega sjávarútveginn. Eftir því sem ég best veit er í gildi 20% aflaregla, en hvað kemur það þessu máli við með breytingar á Stjórnarráðinu hvort við séum með sjálfbæra nýtingu eða ekki?

(Forseti (ÁI): Forseti vill minna hv. þingmenn á að beina orðum sínum til forseta.)