140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:58]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki áhuga á útúrsnúningaumræðum um þessi mál. Ég svaraði því alveg skýrt hvernig þetta væri hugsað með Hafrannsóknastofnun svo langt sem það mál er komið. Það er auðvitað rætt eins og svo margt annað í þessu og unnið er með þeim sem málið varðar að sjálfsögðu. En hvernig svo framtíðin þróast í þessum efnum hjá okkur Íslendingum, hvort við til dæmis förum að einhverju leyti þá braut sem Danir hafa farið, þeir hafa fært sitt rannsóknasamfélag miklu nær háskólasamfélaginu og vistað undir háskólum margar mikilvægar kjölfesturannsóknastofnanir núna í danska kerfinu, það er vissulega ein möguleg leið að fara.

Varðandi sjálfbæra nýtingu og ábyrga nýtingu sem við gætum sýnt fram á og sannað að sé slík og standi undir nafni sem slík þá trúi ég ekki öðru en hv. þingmaður, jafn vel og hann er að sér um sjávarútveg, viti mikilvægi þess í sambandi við vottun framleiðsluvara og annað í þeim dúr. Það er til þeirra hluta sem ég er að vísa og þess hvernig þau mál hafa þróast þegar ég er að undirstrika mikilvægi þess að þessir aðilar vinni vel saman.