140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð erfitt að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þetta mál á þessum forsendum. Hann vísaði í að hann ætti þykkar möppur um þetta mál. Við fáum tvær og hálfa síðu í greinargerð. Við fáum engin efnisleg rök og við fáum engan samanburð á kostnaði. Svona vinnubrögð eru ekki boðleg.

Hvar er samanburðurinn á kostnaðinum við að hafa þetta í efnahagsráðuneytinu og styrkja það og svo kostnaðinum við að flytja þetta til fjármálaráðuneytis? Mér finnst hæstv. ráðherra enn og aftur skauta afskaplega létt fram hjá hættunum á því að skilja fjármálamarkaðinn eftir og hafa hann í öðru ráðuneyti.

Hér er sagt: Þetta er svo sem allt í deiglu.

Eina efnislega greiningin sem við höfum er frá Kaarlo Jännäri frá 2009 sem segir: Það er grundvallaratriði að hafa þetta allt á sama stað.

Ef menn ætla að slíta þetta í sundur, komið þá með efnislegu rökin fyrir því, takk fyrir, þegar Norðmenn hafa þetta á hinn veginn og Svíar hafa þetta á hinn veginn og Finnar hafa þetta á hinn veginn, allt á sama stað.

Sú litla greining sem ég hef séð, sem var unnin af þriggja manna nefnd og tekur um tíu blaðsíður, varar sérstaklega við því að skilja fjármálamarkaðinn frá hinu og segir: Ókostirnir eru meiri en kostirnir við það.

Svona vinnubrögð eru ekki boðleg á nokkurn hátt, að engin fjármálaleg greining sé lögð fram, engin efnisleg greining og enginn rökstuðningur sem heldur vatni.