140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það að vonandi fer þessi stjórn frá fyrr en eftir eitt ár. Bara í þessu máli til að mynda hefur komið í ljós að hér er starfandi minnihlutastjórn. Hún hefur ekki meiri hluta fyrir þessu máli samkvæmt þeim ræðum sem haldnar hafa verið í dag og yfirlýsingum stjórnarþingmanna frá fyrri tíð um þessar stjórnarráðsbreytingar. Þannig að það væri óskandi.

Það hefur kannski verið sá svipur á þessari ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að það er dálítill hringlandaháttur í stjórnkerfisbreytingum. Vilji hefur verið til þess að formbreyta ýmsu án þess að fyrir því séu, að mínu mati í það minnsta, sérstakar forsendur gefnar eða ástæður sem síðan skili sér áfram. Fyrst og fremst er verið að breyta breytinganna vegna og það verður síðan einn af þeim bautasteinum sem stendur eftir þessa stjórn; að þar hafi farið stjórn sem hrærði talsvert í kerfinu en ekki hafi endilega verið sérstakur tilgangur með þeim breytingum annar en að breyta breytinganna vegna. Það er sannarlega mikill hringlandaháttur. Það er augljóst að skynsamlegra hefði verið að hafa þverpólitíska samstöðu þegar verið er að breyta stjórnkerfinu á síðustu metrunum, hugsanlega síðustu dögum ríkisstjórnarinnar ef fram heldur sem horfir en að minnsta kosti þegar svona skammt er eftir af kjörtímabilinu. Ég vil þó taka það fram sem kom líka fram í einhverri ræðu í dag að ekkert óeðlilegt er við það að í upphafi kjörtímabils fari ríkisstjórn frá og þá komi ný að sem leggi til breytingar á stjórnkerfinu sem hún vill vinna að á kjörtímabili sínu. Mér finnst það eðlilegt, en að vera að hræra í þessu fram á síðustu stundu finnst mér afar óeðlileg (Forseti hringir.) vinnubrögð.