140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þrennt sem ég ætla að reyna að koma inn á í þessu stutta andsvari. Ég náði ekki að svara áðan í sambandi við kostnaðarmatið. Ég lagði fram fyrirspurn fyrr á þessu kjörtímabili þar sem ég spurði um árangur af sameiningu stofnana og annarra slíkra sameininga. Það kom í ljós að enginn hafði neitt svar við því. Það hafði annaðhvort gleymst að setja upp mælikvarða til að hægt væri að mæla árangurinn eða menn höfðu aldrei ætlað sér það. Og ef menn höfðu gert slíkar mælingar og þær sýndu að ekki var sparnaður af þeirri sameiningu, þó að hann hafi verið ein af forsendunum fyrir henni, sögðu menn að hagræðingin kæmi væntanlega fram í faglegu starfi seinna meir. Það verður að segjast eins og er að ef sparnaður er ein forsenda sameiningar stofnana og hugsanlega ráðuneyta líka, sem kannski á eftir að koma í ljós, er það yfirleitt fölsk forsenda.

Varðandi umræðuna um hvar einstakar ríkisstofnanir eru vistaðar tek ég undir að það er ákaflega mikilvægt þegar menn fara fram með svo viðamikla breytingu að það liggi ljóst fyrir. Ég held að ástæðan fyrir því að við fáum engin svör frá ráðherrunum um þetta, og ekki koma þau fram í greinargerðinni, sé einfaldlega sú að á bak við þessar breytingar er ekki meiri hluti og við það að segja hvernig hlutirnir eigi að verða að lokum verði til meiri andstaða úti í samfélaginu og þar af leiðandi innan stjórnarflokkanna og það yrði þá banabiti þessara hugmynda.

Ég held að hér sé farið fram með plagg sem er eins grátt og hulið þoku og hægt er til þess að hægt sé að hræra í því eftir á eftir „behag“, eftir því hvernig vindar blása. Ég held að það sé kannski skýringin en við höfum hins vegar ekki fengið svar við þessu í dag í dag.

Varðandi U-beygjuna held ég að það sé kannski stóra spurningin sem við höfum ekki fengið svar við í dag; af hverju í ósköpunum er þessu hent hér fram allt í einu?