140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segist helst vilja gera breytingar á Stjórnarráðinu í þá veru sem hér er verið að ræða hægt og rólega. Þetta er í raun og veru ekkert svar, virðulegi forseti, nema tilgreindur sé nánar hraðinn á því sem um er að ræða. Ég hef fylgst nokkuð vel með umræðum um þessi mál, bæði í dag og á undanförnum tveim, þrem árum, og hv. þingmaður og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagst gegn nánast hverri einustu breytingu sem hér hefur verið lagt til að farið verði í. Vill hv. þingmaður til dæmis skipta upp ráðuneytum sem þegar hafa verið sameinuð? Var það röng ákvörðun að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið 2007? Var það röng ákvörðun að mynda innanríkisráðuneyti? Var það röng ákvörðun að mynda velferðarráðuneyti? Ég man ekki betur en þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi lagst meira og minna gegn öllum þessum breytingum. Er það röng stefna sem við höfum ráðist í og framkvæmt á þessu kjörtímabili að fækka ráðuneytum og ráðherrum í leiðinni, að reyna að skerpa frekar stjórnsýsluna en hitt? Hvað af þessu var rangt, hvað af þessu gerðist of hratt? Hver er reynslan af þessu? Er hún ekki góð? Viljum við fara einhver skref til baka?

Eigum við að taka dæmi af öðrum breytingum sem hafa verið gerðar í gegnum árin? Eigum við að taka dæmi af því þegar eftirlitsstofnanir voru lagðar niður, t.d. Þjóðhagsstofnun í bræðiskasti þáverandi forsætisráðherra sem líkaði ekki niðurstöður sem komu þaðan? Það var ekki gert hægt og hljótt. Það var gert með miklu hraði og naut fyllsta stuðnings þeirra sem fylgdu foringja sínum þá. Ég átta mig engan veginn á því svari sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan og ég ætla að ítreka: Hvaða breytingar telur hv. þingmaður að þurfi að fara í í Stjórnarráðinu í dag? Í hverju eru þær fólgnar og hvað telur þingmaðurinn, (Forseti hringir.) og ég vil fá frekari skýringar á því hjá hv. þingmanni hvað hún á við með því að fara beri hægt (Forseti hringir.) og hljótt og á temmilegum hraða í gegnum þær breytingar? Er verið að tala um ár eða áratugi eða slíkt?