140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:23]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla örstutt að fara nokkrum orðum um þessa tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Eins og hér hefur komið fram snýst tillagan um að Alþingi álykti að breyta fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur m.a. í sér að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Það sem ég ætla sérstaklega að víkja að eru þau áform að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og fella það inn í nýtt atvinnuvegaráðuneyti. Sjávarútvegur og landbúnaður eru grunnatvinnuvegir þjóðarinnar en einnig er nafngiftin og sýnileiki þessara atvinnugreina mjög mikilvæg stjórnsýslu landsins.

Ég vil minna á að í tillögum sem lagðar voru fram þegar ráðuneytum var breytt fyrir tveimur árum var líka tillaga um að breyta og leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og færa inn í atvinnuvegaráðuneyti. Þá var það fellt út úr upprunalegum tillögum í meðförum nefndar og Alþingi ákvað að hafa það ekki með í því púkki sem þá var samþykkt. Það má segja að vilji Alþingis hafi komið fram hvað það varðaði á þeim tíma.

Ég minni líka á ályktun á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri 15.–16. janúar 2010 þar sem skorað var á stjórn og þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins yrðu endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref væru tekin. Með leyfi forseta vitna ég í þessa ályktun:

„Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára.

Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“ (Gripið fram í.)

Það er ljóst að eitt af því sem var haft sem rökstuðningur fyrir þessari ályktun var að þá hafði Alþingi sent umsókn um aðild að Evrópusambandinu og fyrir lá að þær atvinnugreinar sem harðast mundi mæða á í því umsagnarferli yrðu sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Reyndin hefur líka orðið sú og hef ég kynnst því vel og rækilega sem ráðherra þessara málaflokka hversu mikilvægt það er að þessar greinar eigi sem stærstan og öflugastan sess í stjórnsýslunni.

Þær kröfur sem Evrópusambandið gerir í aðlögunarferli sínu og aðildarferlinu eru breytingar á landbúnaði og sjávarútvegi. Það er líka staðreynd að flestir eða nánast allir innan þessara atvinnugreina, bæði sjávarútvegs og landbúnaðar, hafa lýst sig mjög andvíga þessu aðildarferli og inngöngu í Evrópusambandið. Þess vegna m.a. tel ég það mjög mikilvægt að stjórnsýsluleg staða sjávarútvegs og landbúnaðar sé ekki veikt í því ferli sem við erum nú í varðandi umsögn um aðild að Evrópusambandinu. Staðan gæti svo sem orðið önnur ef þeirri vegferð yrði hætt og umsóknin afturkölluð.

Ég minni líka á að þegar þetta mál kom á dagskrá fyrir einu og hálfu ári eða um það bil komu gríðarleg andmæli gegn þessum áformum frá þeim aðilum sem þar eiga undir högg að sækja. Ég rakti þau andmæli í umræðum um breytingar á Stjórnarráðinu þá og minni á að allar greinar, þ.e. Samtök ungra bænda, Landssamtök kúabænda, Landssamband sauðfjárbænda, búnaðarþing 2010, búnaðarsambönd, félög ungra bænda á Austurlandi og Norðurlandi, stjórn Landssambands smábátaeigenda og sveitarstjórnir víða um land, mótmæltu þeim áformum um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og færa inn í atvinnuvegaráðuneyti.

Ég þekki það samráðsferli sem sett var í gang með þessum aðilum. Haldnir voru nokkrir fundir að frumkvæði forsætisráðherra og það samráðsferli, að því er ég veit best, var með þeim hætti að allir þeir aðilar sem þar komu að voru fullkomlega andvígir þessu og sáu ekki neitt koma fram í þeim viðræðum eða fundum sem rökstuddi það eða réttlæti að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og færa inn í atvinnuvegaráðuneyti. Það samráð sem vísað var til í umræðunni hefði ekki átt að leiða til þess að þetta frumvarp kæmi fram, að mínu mati alla vega miðað við það sem kom fram á þeim fundum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta að öðru leyti en því að árétta hér að ég tel mjög óviturlegt að vega svo að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að leggja niður ráðuneyti þessara atvinnugreina og færa þær undir atvinnuvegaráðuneyti og það í fullkominni ósátt við allar greinar þessara atvinnuvega og einnig í ljósi þess að við stöndum nú í þessari umsókn um aðild að Evrópusambandinu sem kemur hvað harðast niður á sjávarútvegi og landbúnaði. Sterk staða þeirra í þessum viðræðum skiptir miklu máli og er því afar óviturlegt að veikja stjórnsýsluna og stöðu sjávarútvegs og landbúnaðar með því að fella niður ráðuneyti þeirra.

Þessu vil ég koma á framfæri, frú forseti.