140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en spyr aftur hvort ráðuneytið hafi, að mati hv. þingmanns, verið lagt niður við sameininguna 2007 fyrst það er túlkað með þeim hætti í dag að þegar flytja á þessi ráðuneyti til og sameina þau sé verið að leggja ráðuneytið niður. Var annaðhvort sjávarútvegsráðuneytið eða landbúnaðarráðuneytið lagt niður á þessum tíma eða stóðu þau óbreytt eftir?

Sú sameining var vissulega umdeild, við getum tekið umræðu um það síðar, og voru ekkert allir sáttir við það á sínum tíma, eins og réttilega kom fram hjá hv. þingmanni. Eftir stendur þá spurningin: Eigum við að fara til baka? Eigum við að skipta þessum ráðuneytum upp aftur? Skildi ég hv. þingmann rétt varðandi háskólana; er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að landbúnaðarháskólarnir, til dæmis á Hólum, fyrst sá skóli var nefndur hér, eigi heima undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eða landbúnaðarráðuneytinu frekar en undir menntamálaráðuneytinu? Telur hv. (Forseti hringir.) þingmaður að það sé galli á sameiningu sem þá var að háskólarnir hafi verið fluttir milli ráðuneyta?