140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir hvaða skoðanir hv. þingmaður hefur á þeirri sameiningu sem hér um ræðir. Þingmaðurinn nefndi ályktun sem birt var gegn þeirri sameiningu. Það fór fram hjá mér hvaðan sú ályktun er ættuð. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara yfir það hér hvaðan þessi ályktun kemur og mikilvægi hennar fyrir flokk hv. þingmanns.

Hv. þingmaður gerði að umræðuefni þátt Evrópusambandsins þegar kemur að þessum breytingum öllum saman. Ef ég man rétt hefur þingmaðurinn áður haldið því á lofti að það sé ein af kröfum Evrópusambandsins að þessar sameiningar nái fram að ganga. Er skemmst að minnast ályktunar Evrópuþingsins frá 14. mars síðastliðinn í 24. lið, að mig minnir, þar sem því er fagnað mjög og lögð áhersla á að sameiningar haldi áfram í ráðuneytunum. Því er reyndar fagnað í sömu ályktun að hæstv. ráðherra skuli hafa yfirgefið ráðuneytið.

Það er líka athyglisvert að heyra hv. þingmann tala um samráðið sem ekki var haft. Árið 2007 gagnrýndu þingmenn Vinstri grænna, sér í lagi formaður flokksins, mjög þá aðferðafræði sem þá var notuð við breytingar á Stjórnarráðinu og sögðu að slíkt ætti ekki að gerast nema að undangengnu mjög nánu pólitísku samráði. Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn sé enn þá þeirrar skoðunar, sem margir þingmenn Vinstri grænna voru á þeim tíma, að breytingar sem þessar eigi ekki að gera nema að undangengnu nánu pólitísku samráði. Við hljótum öll að sjá að eftir eitt ár tekur við ný ríkisstjórn hér sem mun eflaust hafa það sitt (Forseti hringir.) fyrsta verk að breyta þessum hlutum ef henni sýnist svo.