140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt, sú ályktun sem ég las var af flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í janúar 2010 í ljósi Evrópusambandsumsóknarinnar. Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Þá er slík aðgerð til þess fallin að veikja samningsstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Það held ég að sé mjög mikilvægt í þessu sambandi. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið lætur sig flest varða á Íslandi nú orðið og í ályktuninni frá 14. mars síðastliðnum ályktar Evrópuþingið, í skýrslu sinni um stöðu aðildarviðræðna Íslendinga við Evrópusambandið, eins og þeim komi þær eitthvað við. Þá fagnar Evrópuþingið yfirstandandi sameiningu ráðuneyta á Íslandi, viðurkennir skilvirkni og fagmennsku og styður það heildarmarkmið að bæta stjórnunar- og samræmingargetu íslenskra ráðuneyta og hvetur til þess að haldið verði áfram á þessari braut.

Evrópusambandið tjáir sig þar með beinni íhlutun um skipan ráðuneyta á Íslandi og er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður leggur áherslu á, að ein af kröfunum sem settar eru til að stjórnsýslan búi sig undir aðildina er að þau ráðuneyti sem fari með bæði iðnaðarráðuneytið, eða byggðaráðuneytið sem slíkt, og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti verði sameinuð í eitt til þess að geta mætt þeim (Forseti hringir.) kröfum sem gerðar eru, svo sem um stofnun greiðslustofnunar sem annast styrkveitingar til (Forseti hringir.) byggða- og atvinnumála.