140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort sem Evrópusambandið setur breytingar á Stjórnarráðinu sem skilyrði í aðildarviðræðunum eða ekki er ljóst að fram hafa komið skrif, samþykktir, ályktanir og greinargerðir frá hinum ýmsu stofnunum Evrópusambandsins þar sem lýst er yfir stuðningi við breytingar ríkisstjórnarinnar á Stjórnarráðinu og ráðuneytum og hvatning er um að halda áfram á sömu braut. Að minnsta kosti liggur fyrir mjög jákvæður andi af hálfu Evrópusambandsins í þessum efnum sem er auðvitað athyglisvert vegna þess að hér innan lands er því haldið fram að þetta mál sé algjörlega aðskilið frá Evrópusambandsaðild. Ef svo er, ef þetta kemur Evrópusambandsaðild ekkert við, er auðvitað athyglisvert að Evrópusambandið skuli ítrekað láta í ljós jákvæð viðhorf til þessara breytinga í alls konar stöðumatsskýrslum og greinargerðum.

Ég held að það hafi ekki komið fram í þessari umræðu, en fyrr í vetur var í þinginu rætt um að það væri með einhverjum hætti skilyrði þess að tilteknir kaflar í samningaviðræðunum væru opnaðir að þessar breytingar væru settar í gang. Var þá vísað meðal annars til byggðamála, landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála. Mér fannst niðurstaða stuttra orðaskipta í þinginu alls ekki skýr hvað þetta varðaði en ég vildi biðja hv. þm. Jón Bjarnason að koma nánar inn á þetta atriði í svari sínu ef hann þekkir þetta.