140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:48]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ef þessi mál eru fullkomlega aðskilin er mjög sérstakt að Evrópusambandsþingið skuli telja nauðsynlegt að álykta sérstaklega um þetta. Það er alveg hárrétt og það ætti að vera umhugsunarefni og hefði svo sem verið eðlilegt að forsætisráðherra hefði skýrt það hvers vegna Evrópusambandsþingið er að álykta hér í tengslum við aðildarumsóknina og meðferð hennar um stjórnsýsluna á Íslandi.

Hitt er alveg rétt að það er hluti af opnunarskilmálunum sem settir voru fyrir bæði landbúnaðarkaflann og byggðakaflann að stjórnsýsla þessara mála, sérstaklega sem laut að stofnun og greiðslu upptöku styrkjakerfisins í Evrópu, yrði sameinuð í eina slíka stofnun.

Evrópuþingið ályktar einmitt um þetta og þar segir, með leyfi forseta:

„Evrópuþingið álítur það mikilvægt að undirbúningur er hafinn svo að nauðsynlegt stjórnskipulag sé nægilega aðlagað til að Ísland taki fullan þátt í svokölluðu CAP frá aðildardegi.“

Það er þetta styrkjakerfi og þarna er Evrópusambandið að álykta um að þetta sé ein af mikilvægum forsendum þess að við getum yfirtekið regluverk og kröfur Evrópusambandsins frá fyrsta degi og að stjórnsýslan sé tilbúin til þess. Einn liður í kröfu þess er að þetta sé sameinað og að ráðið verði við það verkefni.