140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og er þessi tillaga lögð fram vegna athugasemda sem þingheimur gerði við frumvarp til laga um Stjórnarráðið þar sem forsætisráðherra átti að vera heimilt að skipa ráðuneytum og nefna þau nafni án þess að það þyrfti að koma til þingsins eða vera rætt yfir höfuð. Þess vegna er verið að ræða þennan samruna og þau heiti sem óskað er eftir að Alþingi styðji.

Mig langar aðeins, virðulegur forseti, að velta fyrir mér hvert sé aðalmarkmiðið með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til. Og hverjar eru væntingar þeirra sem leggja fram þessa tillögu?

Það er sagt að aðalmarkmiðin með breytingunum séu að við fáum öflugri og skilvirkari ráðuneyti, það myndist hæfni til að takast á við aukin og flóknari stjórnsýsluviðfangsefni, hægt verði að tryggja formfestu í stjórnsýslunni og við fáum skýrari verkaskiptingu ráðuneyta. Sjálfsagt getur enginn, virðulegur forseti, mælt því í mót að þetta sé af hinu góða. Hins vegar langar mig að velta þessu með stjórnsýsluna sérstaklega fyrir mér vegna þess að í frumvarpi til laga um Stjórnarráðið sem lagt var hér fram á haustdögum, stendur á bls. 7, með leyfi forseta:

„Löggjöf og reglur geta vissulega mælt fyrir um umgjörð slíkrar samvinnu“ — þ.e. samvinnu milli ráðuneyta og innan ráðuneyta — „en hugarfarsbreytingar er jafnframt þörf hjá þeim sem starfa í stjórnsýslunni þar sem samvinna er lykilþáttur.“

Það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að til þess að efla stjórnsýsluna sjálfa og þá aðila sem þar vinna, ekki til að gera ráðuneytin stærri og öflugri, þarf að huga að þeim mannauði sem starfar í ráðuneytinu og hvernig hægt er að styrkja hann til þess að starfa í stjórnsýslunni, því stjórnsýslan er fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt. Þess vegna finnst mér dapurt að á þeim árum sem liðin eru frá því þessi ríkisstjórn tók til starfa, sem ætlaði að stunda opna og gegnsæja stjórnsýslu í anda samþykktarinnar frá 2010, hefur til dæmis ekki sett sér neina mannauðsstefnu, hún hefur ekki ráðið til sín mannauðsstjóra sem gæti verið styrkasti þátturinn í því að efla hæfni fólks til að vinna í stjórnsýslunni. Þannig að til að stjórnsýslan virki eins og ætlast er til og til að efla hana þarf að mínu mati annað og meira en stærri og öflugri ráðuneyti.

Hvaða árangri hafa fyrri breytingar á Stjórnarráðinu sem þessi ríkisstjórn hefur gert í raun og veru skilað? Við skulum líta til tveggja þátta.

Efnahagsskrifstofa forsætisráðuneytisins og efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins voru báðar fluttar í efnahags- og viðskiptaráðuneytið og þar átti að búa til öflugt ráðuneyti sem tæki í efnahags- og hagstjórninni. Með þessu var gjörsamlega rýrt inn að skinni veigamesta embætti ríkisstjórnarinnar fram til þessa, forsætisráðuneytið. Maður sér ekki, miðað við verkaskiptingu milli ráðuneyta, til hvers í raun við þurfum forsætisráðherra. (Gripið fram í: Í jafnréttismálum.) Svo rýrt er það embætti orðið að það er eiginlega með endemum. Mér er til efs að nokkurs staðar á Norðurlöndum, af því að oft er ýjað að því að þessar breytingar séu beintengdar því sem gerist á Norðurlöndum — sé nokkurt forsætisráðuneyti jafnrýrt að verkefnum og forsætisráðuneytið á Íslandi. Mér þykir það miður.

Mér er líka til efs, virðulegur forseti, að þær breytingar sem hér er ætlað að gera, og fela í raun í sér U-beygju hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum frá því sem þeir lögðu upp með í byrjun, skili árangri. Í frumvarpinu segir að með breytingunum 2009 þegar fluttar voru burtu efnahagsskrifstofur forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hafi, með leyfi forseta, „verulega dregið úr hagfræðilegri þekkingu fjármálaráðuneytisins og yrði talið nauðsynlegt að efla þekkingu ráðuneytisins á því sviði frekar enda þótt efnahags- og viðskiptaráðuneytið mundi starfa áfram“.

Þá spyr ég, virðulegur forseti: Af hverju í ósköpunum er það þá ekki gert? Af hverju er ekki hagfræðileg þekking í fjármálaráðuneytinu aukin og efnahagsráðuneytið styrkt? Hvaða máli skiptir það þó að fáir verkþættir í sjálfu sér séu á höndum efnahagsráðuneytis og það sé minna að stærð og fjölda en önnur ráðuneyti ef það á að og ætti að fara með jafnmikilvæg mál og efnahagsmál íslensku þjóðarinnar?

Sú nálgun sem sést í þessari tillögu er með ólíkindum, virðulegur forseti, og það er ljóst að ekki er meiri hluti núverandi stjórnarflokka fyrir henni vegna þess að hv. þm. Árni Páll Árnason talaði gegn þessum breytingum og mun ekki styðja þær í óbreyttri mynd. Þá veltir maður fyrir sér hvaða hrossakaup hafa verið gerð á bak við tjöldin, hvort björgunarsveitin komi til og bjargi ríkisstjórninni með þessa þingsályktunartillögu fyrir horn. Við vitum að björgunarsveitin er fólgin í Hreyfingunni og hugsanlega einum öðrum hv. þingmanni, þannig að einhver slíkur samningur hlýtur að liggja fyrir vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir hafa ekki meiri hluta til breyttrar skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er, virðulegur forseti, frekar dapurt.

Og að færa á eina hendi, færa til eins ráðherra sem heitir fjármála- og efnahagsráðherra, jafnveigamikil verkefni og gert er ráð fyrir dreg ég í efa að sé til bóta. Ég leyfi mér að vitna að nýju í frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem lagt var fram á 139. löggjafarþingi á þskj. 1191, 674. mál. Þar er meðal annars vitnað í rannsóknarskýrslu Alþingis, og sagt, með leyfi forseta:

„Smæð hins íslenska stjórnkerfis og það hversu mjög brýnustu verkefnin hvíldu á herðum fárra einstaklinga virðist einnig hafa verið alvarlegur veikleiki.“

Samt ætla menn, í ljósi þess sem segir í rannsóknarskýrslu Alþingis, að færa á eina hendi fjármálaráðuneytið og efnahagsráðuneytið. Vissulega munu menn fjölga á skrifstofunni, en það eitt mun ekki skipta meginmáli. Þess vegna held ég, virðulegur forseti, að þetta sé röng nálgun. Ég hef ekki séð neina greiningu á þessu þrátt fyrir að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi talað um þetta ráðuneyti sem móðurráðuneytið, og gefi þar af leiðandi lítið fyrir forsætisráðuneytið því að þetta verður móðurráðuneyti. Hvergi liggur fyrir fyrir okkur þingmenn greining eða mat á þessu, hvernig þetta var unnið og með hverjum eða hvernig komist var að þessari niðurstöðu. Það kann að vera að hæstv. ráðherra viti allt um slíkt. En þegar borin er á borð jafnmikil U-beygja og felst í þessu fjármála- og efnahagsráðuneyti og horfið er frá því sem stjórnarsáttmálinn sagði til um og sem greint var frá í stjórnarfrumvarpinu sem hér var lagt fram, hlýtur þingheimur að geta krafist þess að hafa í höndum greiningu eða mat, til að sjá með hverjum var unnið og sjá hvað liggur að baki þessari kúvendingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna; að færa undir einn hatt, sameina í eitt ráðuneyti, fjármálaráðuneytið og efnahagsráðuneytið.

Virðulegur forseti. Meginmarkmiðið er í sjálfu sér gott, að við fáum skilvirk ráðuneyti, tryggjum formfestu í stjórnsýslu og skýrari (Forseti hringir.) verkaskiptingu, en það er margt í þessu sem er gagnrýnivert og þarf að ræða betur.