140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn þessa þingsályktunartillögu. Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni. Mér er til efs, miðað við þá umræðu sem hefur farið hér fram og ekki síst af hálfu nokkurra stjórnarliða, að nógu vönduð vinna hafi verið lögð í þetta mál frá upphafi. Ljóst er og hefur líka komið fram að ekki hefur verið leitað eftir einu einasta samráði við stjórnarandstöðuna um málið, heldur er það eingöngu lagt fram af forsætisráðherra og væntanlega algjörlega unnið á þeim bænum.

Fram kemur í þessum málum öllum saman að töluverð vinna virðist vera eftir, t.d. að yfirfara löggjöf og ýmislegt þess háttar varðandi þessi nýju ráðuneyti ef eitthvað í löggjöf þeirra kann að skarast. Við fyrstu sýn virðist þetta svolítið bagalegt. Maður veltir fyrir sér hvort breytingar á löggjöfinni sem í framhaldi kann að fylgja verði ef til vill til þess að verkefni sem ekki eru rædd hér og jafnvel verkefni sem eru rædd hér endi á öðrum stað en í dag.

Töluvert hefur verið rætt um einstaka liði rökstuðningsins eins og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Í þeim ræðum sem ég hef heyrt hefur einnig verið talað um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en minna um umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ég vil því að mín skoðun komi fram. Mér finnst vanta svolítið upp á að það sé skýrt nægjanlega vel hvað stjórnvöld eða forsætisráðherra er að fara með breytingum er varða umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það virðist liggja í loftinu að fyrirhugað sé að styrkja það ráðuneyti enn frekar með einhverjum ráðum og veltir maður þá fyrir sér hvað búi þar að baki.

Ég hygg að sú leið sem hefði verið vænlegust til að ná sátt um málið til framtíðar — við vitum að þegar svo stutt er eftir af kjörtímabilinu eru allmiklar líkur á því að hlutum sem illa eru unnir verði fljótt snúið við — væri að ræða hreinlega enn áhrifameiri breytingar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á í september síðastliðnum þegar þingmaðurinn velti því fyrir sér hvort ætti að ganga alla leið og skipta jafnvel út hluta stjórnsýslunnar þegar nýr ráðherra kæmi inn í ráðuneytið. Þegar ráðherra Vinstri grænna færi til dæmis út úr sínu ráðuneyti færi ákveðinn hluti af staffinu með honum, síðan kæmi annar ráðherra inn, úr Samfylkingu eða annars staðar frá, og með honum ákveðið starfsfólk. Þetta þekkist á sumum stöðum, til að mynda í Bandaríkjunum ef ég man rétt. Þetta kynni að vera gott á hverjum tíma fyrir flokka sem koma inn í ráðuneyti til að fylgja eftir þeim pólitísku sjónarmiðum sem þeir eru kjörnir út á. Ég held að þetta sé nokkuð sem þarf að athuga í framtíðinni þegar við ræðum frekari breytingar á þessum málum öllum.

Fram kom hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þær breytingar sem hér eru lagðar fram séu í andstöðu við flokksráðsályktanir Vinstri grænna. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki hefur verið ályktað á annan hátt varðandi þessi mál. Í ljósi þess hvernig ákveðnir þingmenn tala hér varðandi gamlar ályktanir frá flokkunum hlýtur þetta að vera í gildi enn miðað við sömu rök. Ljóst er að í það minnsta formaður flokks vinstri grænna og fleiri fara beinlínis gegn því sem flokksráðið ályktaði og verður athyglisvert að fylgjast með því hvort þetta flokksbatterí tekur á málunum með einhverjum hætti í framhaldinu.

Mér sýnist að frumvarpið, svo að ég dragi það saman í heild, verði ekki til þess að einfalda stjórnsýsluna. Ég held að það geri hana flóknari. Ég held að það muni auka vægi stjórnsýslunnar, embættisgeirans, í íslensku samfélagi að fækka þessum ráðuneytum. Mín skoðun er sú að reynslan af sameiningu t.d. í velferðarráðuneyti sé ekki góð. Ég held að menn eigi að fara mjög varlega í að taka svona ákvarðanir þegar það virðist í fyrsta lagi vera tæpt eða hæpið að á bak við þær sé meiri hluti og í öðru lagi án alls samráðs við stjórnarandstöðuna eða aðra flokka á þingi.