140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom einmitt inn á það í ræðu sinni sem var rætt hér við stjórnarráðsbreytingarnar sem urðu fyrir ekki svo löngu síðan að það hafi verið ákveðinn samhljómur hér í sölum þingsins um að það yrði alveg skýrt hvernig staðið yrði að því þegar skipt væri um ráðherra eða ríkisstjórn. Þá kæmi ráðherra inn með ákveðið teymi sem í gætu verið jafnvel tveir til fjórir eða hvað þeir væru margir og þeir sem kæmu inn með viðkomandi ráðherra færu aftur úr ráðuneytinu þegar yrðu ráðherraskipti. Ég held að það væri nær að við værum að ræða slík mál núna.

Eins kom hv. þingmaður í lok ræðu sinnar inn á þær breytingar sem höfðu orðið við stóru ráðuneytin sem voru sameinuð síðast, annars vegar innanríkisráðuneyti og hins vegar velferðarráðuneyti. Ég tek undir það heils hugar með hv. þingmanni að ég held að ákveðin hætta sé á því, með því að gera þetta með þessum hætti, að verið sé að færa valdið til embættismannanna vegna þess að þegar ráðuneytin eru orðin svona stór og umsvifamikil eins og þessi tvö ráðuneyti þá skiptir ekki máli hver einstaklingurinn er, ég er ekki að tala um þá einstaklinga sem gegna þeim embættum, það má ekki skilja mig þannig, því að viðkomandi hæstv. ráðherrar verða að færa mun fleiri verkefni til embættismannanna í staðinn fyrir að hafa þetta markvissara og hafa ráðuneytin ekki eins stór.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um að það sé hugsanlega reyndin með þessar sameiningar sem farið var í á annars vegar innanríkisráðuneyti og hins vegar velferðarráðuneyti.