140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð hugmynd og vert að skoða. Hugsanlega hefði þessi hugmynd verið skoðuð ef stjórnvöld hefðu haft fyrir því að leita samráðs við stjórnarandstöðuna eða skipa starfshóp til að fara yfir það hvernig best væri að standa að þessum breytingum.

Það er líka athyglisvert að heyra þær tölur sem þessar tilfæringar allar hafa kostað því að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það kann að vera ár í að aðrar 250 milljónir þurfi að reiða fram til að breyta aftur þeim ráðuneytum sem nú er búið að hringla með vegna þess að það er ekki búið að gera neina tilraun til þess að hafa hér samráð um eða móta til framtíðar einhverja sýn á hvernig þetta eigi að líta út.

Við hljótum því að gera þá kröfu, ég held að það sé hægt, að núna verði hreinlega sest niður. Hæstv. forsætisráðherra ætti vitanlega að taka mig á orðinu og leggja málið til hliðar og leita eftir samráði við stjórnarandstöðuna um það hvernig Stjórnarráðið eigi að líta út til framtíðar, til langrar framtíðar, hvernig lögin eigi að líta út, hvaða svigrúm eigi að vera fyrir framkvæmdarvaldið á hverjum tíma.

Mér hugnast illa, og hef sagt það hér áður, sú þróun sem ég tel að hafi verið í stjórnsýslunni undanfarin ár varðandi Alþingi og framkvæmdarvaldið. Mér hefur fundist töluvert verið aukin þau völd og tæki sem framkvæmdarvaldið hefur haft meðan Alþingi býr enn við frekar lakan kost þegar að því kemur. Ég held að það sé mikilvægt fyrst við erum að ræða svona stjórnarráðsbreytingar að hafa í huga að hinum megin er Alþingi, löggjafinn, sem býr við það að fá nánast á færibandi frumvörp eða þingsályktunartillögur frá ríkisstjórninni til að afgreiða, en hefur þrátt fyrir það mjög gott starfsfólk og ég vil í raun taka fram að ég held að ráðuneytin hafi líka mjög gott starfsfólk, það er enginn að deila um það, en okkur þingmenn (Forseti hringir.) vantar sárlega tæki og tól til að stunda sjálfstæðari vinnubrögð en verið hafa.