140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég játa að þessi umræða okkar hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar er á jaðri meginefnis umræðu okkar í dag, af því að hugmyndin um efnahagsráð er væntanlega þess eðlis að til að framfylgja henni þarf að koma fram lagafrumvarp. Það þarf að vera einhver lagastoð eða eitthvað þess háttar til að svona stofnun eða ráð hafi starfsgrundvöll og fjárheimildir og annað slíkt. Hvernig það er mótað út af fyrir sig er umræða sem þarf að taka síðar.

Ég velti fyrir mér, af því við erum að ræða um breytingar á Stjórnarráðinu, hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að þegar Hagstofunni var breytt og færð undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið og færð ýmis aukin verkefni, var ætlunin ekki að hún yrði með einhverjum hætti sjálfstæður og óháður aðili sem ætti að geta mótað hagspár, óháð því hvað væri til dæmis í gangi í fjármálaráðuneytinu og þess háttar?

Ég er að velta fyrir mér hvort við séum ekki einhvern veginn bæði að bakka með ákvarðanir sem voru teknar fyrir örstuttu síðan og hugsanlega að draga úr því hlutverki sem meiri hluti þingsins raunverulega ætlaði Hagstofunni þegar breytingar voru gerðar árið 2009.