140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þar sem hann kom inn á að þau vinnubrögð væru hreint með ólíkindum að fara núna í þessar miklu breytingar á Stjórnarráðinu sem eiga að taka gildi einungis sex mánuðum áður en ríkisstjórnin á að fara frá, í síðasta lagi. Auðvitað berum við held ég, ég og hv. þingmaður, sömu von í brjósti, að hún verði farin frá fyrr bara svona með hag þjóðarinnar að leiðarljósi, en það er alveg hreint með ólíkindum hvernig þessi vinnubrögð eru og vil ég taka undir það með hv. þingmanni.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um eitt. Reynslan hefur verið básúnuð út um allt af breytingunum á velferðarráðuneytinu eða þegar það var búið til og hins vegar innanríkisráðuneytinu, sem eru mjög stór og veigamikil ráðuneyti, þá var farið í breytingar á húsnæði, sem var sagt af hálfu þeirra sem töluðu fyrir þeim breytingum að væru afskaplega vel undirbúnar og alveg vitað hvert væri verið að fara og var þá gert ráð fyrir að þær breytingar mundu kosta 160 milljónir. Hins vegar varð niðurstaðan sú að þær kostuðu tæplega 250 milljónir sem er dálítið mikil skekkja, sérstaklega á þessum erfiðu niðurskurðartímum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það að menn þurfi að vanda málin betur og þurfi að standa skil á því þegar framkvæmdir fara svona fram úr áætlun. Mér finnst hæstv. ráðherrar vera oft og tíðum dálítið bíræfnir að koma hér upp og tala fyrir því að vel hafi tekist til þó svo að áætlanir hafi ekki staðist.

Það sem ég ætla líka að spyrja hv. þingmann um er hvort honum fyndist ekki eðlilegt að kostnaðargreining fylgdi með þessari þingsályktunartillögu um hvað kostnaðurinn mundi verða mikill á þessum breytingum á Stjórnarráðinu.