140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það með stökustu ólíkindum að þessu skuli ekki fylgja kostnaðargreining. Ég hafði bara ekki tíma til þess í ræðu minni að fara út í þá sálma. Það er því miður, eins og margt af því sem ég nefndi í ræðu minni, í samræmi við annað í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Hér eru lögð fram frumvörp um risastór mál án þess að efnahagsleg áhrif þeirra hafi verið könnuð. Ég nefni sem dæmi sjávarútvegsfrumvarpið er varðar undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það hefur ekki einu sinni verið haft fyrir því að kanna efnahagsleg áhrif af því að gjörbreyta undirstöðum undir þessa mikilvægu atvinnugrein. Þetta er því miður í samræmi við það.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er býsna bíræfið þegar ráðherrar koma hér og segja að það hafi tekist svo vel til í fyrri tilraunum þeirra að krukka í Stjórnarráðinu þegar fyrir liggur að þær forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar stóðust ekki. Bent var á það á sínum tíma, þegar þau áform sem hv. þingmaður nefndi voru kynnt, að vera kynni að þetta væri mjög vanáætlað, þ.e. kostnaðurinn við að ráðast í þessar breytingar. Það gátu menn bent á vegna þess annars vegar að þeir gátu svona nokkurn veginn reiknað út í huganum hvað þetta kynni að kosta og í öðru lagi höfðu þeir reynsluna af því að sjá áætlanir lagðar fram aftur og aftur sem ekkert var að marka. Og svo er það nú staðfest að ekkert var að marka áætlanir við fyrri tilraunir til að sameina ráðuneyti. Samt koma menn hér upp og lýsa því þannig að það hafi heppnast allt svo afskaplega vel þegar tölur á blaði, svart á hvítu, sýna að raunin varð allt önnur.

Hin praktísku áhrif af þeim sameiningum er svo annað atriði sem ég hefði líka gjarnan viljað hafa (Forseti hringir.) tíma til að fara yfir í ræðu minni áðan, því að á margan hátt stóðust forsendur hvað það varðar ekki heldur.