140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held að það sé alveg hárrétt mat að í þessu máli eins og líklega flestum, að minnsta kosti flestum stærri málum ríkisstjórnarinnar, birtast glögglega áhrif þess að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem er bara að hugsa um einn dag í einu, bara lifa þann daginn af. Það var mjög skýrt í þeim ráðherrabreytingum þar sem Samfylkingin ákvað að fórna einum manni til þess að geta losað sig við hv. þm. Jón Bjarnason úr ráðherrastóli. Á margan hátt er þetta eins og skák þar sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að tefla með sína menn og alltaf í einhverjum mannakaupum í stað þess að stefna að sameiginlegu markmiði sem hlýtur að eiga að vera grundvallaratriði hjá ríkisstjórn.

Reyndar verð ég þó að taka fram að við eigum kannski ekki að vera of áhyggjufullir yfir því að stjórnin skuli ekki stefna samhent að tilteknum markmiðum vegna þess að ég hef verulegar áhyggjur af því hver þau markmið væru miðað við málflutning stjórnarinnar og þær lýsingar sem koma annars vegar á því sem Samfylkingin vill ná og hins vegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

Þessi skák sem ég lýsi og á sér stað á milli stjórnarflokkanna markast þó líka af því að það er eitt markmið öðrum æðra hjá þessari ríkisstjórn sem veldur því að annar skákmannanna er — nú veit ég ekki við hvað á að líkja, hann er kannski að tefla ákveðna blindskák, því að Evrópusambandið og aðildarferlið þar gerir Vinstri hreyfingunni – grænu framboði auðvitað mjög erfitt fyrir hvað eftir annað, eins og við sjáum núna síðast þegar Evrópusambandið ræðst á Ísland (Forseti hringir.) fyrir EFTA-dómstólnum með mjög fruntalegum hætti eins og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon lýsti því, en samt grípur hann ekki til varna.