140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu snýr að skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og er því eðli máls samkvæmt mikilvægt. Ég verð að taka undir þær skoðanir sem hafa komið fram hjá hv. þingmönnum, það er mjög sérstakt að gera svo viðamiklar breytingar undir lok þessa kjörtímabils. Þótt ég vilji ekki nota orðið kollsteypa eða eitthvað þess háttar er hér um að ræða það miklar breytingar á Stjórnarráðinu að menn hefðu í það minnsta átt að geta gert kröfu um að þetta mál væri betur undirbúið en blasir við af lestri þeirra athugasemda sem fylgja þessari þingsályktunartillögu. Þegar menn hafa farið í gegnum röksemdafærsluna er alveg augljóst að málið er vanbúið. Það vantar töluvert mikið upp á að hægt sé að segja að hér liggi fyrir útfærðar hugmyndir um hvernig eigi að standa að þessu skipulagi og þessum breytingum. Þess vegna held ég að fyrir Alþingi liggi það eitt að geyma þetta mál, senda það aftur til ríkisstjórnarinnar og gera þá kröfu að þetta mál allt saman verði miklu betur undirbúið þannig að búið verði að greiða úr ýmsum þeim vandamálum, sem svo augljóslega munu koma upp og menn sjá fyrir, áður en til einhverra breytinga er gripið.

Ég vil fyrst nefna hér að í umfjöllun um meginmarkmiðið er lagt upp með nokkur markmið og það er sjálfsagt í það minnsta að vekja athygli á nokkrum atriðum sem eru til umhugsunar. Svo ég grípi niður í texta segir hér, herra forseti:

„Þá býður sameining ráðuneyta sem fara með atvinnumál upp á aukna möguleika til sérhæfingar og aukið bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs þvert á atvinnugreinar.“

Ég verð að játa að ég geri mér ekki miklar vonir um að nýsköpun og þróunarstarf í atvinnulífinu eigi svo mikið undir því hvernig skipan Stjórnarráðsins er háttað. Ég held nefnilega að nýsköpunin, frumkvöðlastarfið, gerist án þess að búið sé að skipa fyrir um það á Alþingi hvernig nákvæmlega stjórnskipanin er eða hvernig staðið er að verkaskiptingu ráðuneytanna. Vissulega geta ráðuneytin þvælst fyrir með undarlegri löggjöf, háum sköttum og vondri efnahagsstefnu, en ef staðið er skynsamlega að þeim málum held ég að þetta meginmarkmið þarna sé þess eðlis að ekki sé hægt að nýta eða nota það sem sérstaka réttlætingu fyrir þessum breytingum.

Jafnframt vek ég athygli á næstu setningu í skjalinu sem er svona, með leyfi herra forseta:

„Breytingarnar tryggja jafnframt skýrari stöðu auðlindamála í samræmi við breytingar á samfélaginu.“

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvað hér er átt við með skýrari stöðu auðlindamála í ljósi breytinga á samfélaginu. Hvaða breytingar á samfélaginu er verið að tala um? Það væri mjög áhugavert ef þeir sem fyrir þessari tillögu mæla gæfu okkur betur í skyn hvaða breytingar það eru á samfélaginu sem kalla á þessar breytingar á auðlindaskipulaginu. Gott og vel.

Í þriðja lagi varðandi meginmarkmið sem ég vil nefna er að hér er talað um að það megi draga þann lærdóm, herra forseti, svo ég haldi áfram að vitna í plaggið sjálft, að það megi draga „þann lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þörf sé á að efla ráðuneytin og ein leið að því marki er að stækka þau með sameiningu. Undir þetta er tekið í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslunni Samhent stjórnsýsla.“

Ég get alveg tekið undir að það er kannski rétt að leggja áherslu á að styrkja ráðuneytin, en það er ekki þar með sagt að það eigi að stækka þau. Það er ekki þar með sagt að menn nái þeim árangri með því að gera verksvið ráðuneytanna umfangsmeira og þá um leið líka oft og tíðum flóknara, að það leiði endilega til þess að menn hafi betri og skarpari sýn yfir þessi mál. Hitt er að veikburða ráðuneyti, hversu víðfeðmur sem málaflokkurinn er, býður heim hættunni á að gerð séu mistök í stjórnsýslunni.

Vík ég nú að tilteknum ráðuneytum sem hér er verið að ræða um að sameina. Ég get tekið undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni hvað varðar stöðu Fjármálaeftirlitsins annars vegar og hins vegar Seðlabanka og verkefni þar á milli. Ég er sammála því mati og þeirri skoðun að það sé eðlilegt að eftirlit með fjármálastofnunum eigi sér stað innan vébanda Seðlabankans. Þegar menn skoða sögu Seðlabankans og hlutverk seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara má ljóst vera að það sé nauðsynlegt fyrir seðlabankana, ef þeir eiga að geta staðið undir slíku hlutverki, að geta lagt sjálfstætt mat á þau eignasöfn sem til staðar eru í bankakerfinu, í fjármálastofnunum. Ef til þess kemur, og það gerist gjarnan með skömmum fyrirvara, að það þurfi að veita lán til þrautavara er mjög mikilvægt að Seðlabankinn hafi sjálfstæða skoðun á því hvort viðkomandi fjármálastofnun sé í lausafjárvanda sem hægt er að bjarga með lánum til þrautavara eða um sé að ræða fjármálastofnun sem er ekki lengur á vetur setjandi. Ef á annað borð á að standa að þeim breytingum sem hér er verið að ræða, breytingum á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu, er að mínu mati sjálfsagt að ræða um leið þennan þátt málsins og koma honum í þann farveg sem ég mæli hér með og aðrir hv. þingmenn hafa gert.

Síðan er það umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Ég verð að játa að mér þykir nokkuð óskýrt hvernig fara á með mikilvægar ákvarðanir eins og til dæmis um heildarafla við fiskveiðar á Íslandsmiðum. Mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið eitt og sér hafa lokaorðið í þeim málum? Eða er það einhvers konar samstarf þessara ráðuneyta? Ég hef verið að reyna að lesa í gegnum þetta til að átta mig nákvæmlega á því hvað hér er um að ræða. Í athugasemdunum með þingsályktunartillögunni er það nefnt að samstarf ráðherranna verði eins og hér stendur, með leyfi forseta, „formgert með mótun nýrrar aðferðafræði og tækja, svo sem vegna mótunar aflareglna sem nauðsynlegar eru til að markmið um sjálfbæra nýtingu nái fram að ganga“.

Er nema von að maður reki augun í þetta og velti fyrir sér hvað nákvæmlega sé átt við. Hvaða fyrirkomulag ætlum við að hafa á þessum málum?

Það er sagt áfram í þessum athugasemdum að það verði einhvers konar samstarf á milli þessara ráðuneyta að fara yfir þessa verkferla um hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig. Þetta er allt of óljóst til að Alþingi geti samþykkt svona þingsályktunartillögu án þess að sjá framan í það hvernig eigi að skipa þessum málum.

Svo verð ég að segja að mér finnst alveg merkilegt að sjá í umræðunni um fjármála- og efnahagsráðuneyti þessa setningu hér, með leyfi herra forseta:

„Til þess að auka gagnsæi í efnahagsmálum og tryggja samfélagslegt aðhald við hagstjórn sem mótvægi við sterkt ráðuneyti fjármála og efnahags, til viðbótar við ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál þar sem aðrir ráðherrar koma að borðinu“ — og ekki veit ég hvaða borð það er — „er til skoðunar að koma á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga“ o.s.frv.

Hvað nákvæmlega er átt við með orðunum „tryggja samfélagslegt aðhald“? Hvað erum við að samþykkja ef við erum að tala um svona fyrirkomulag? Ég átta mig ekki á því hvernig samfélagslegt aðhald felst í því að einhver hópur sérfræðinga sem er skipaður af forsætisráðherra hefur einhverja skoðun á efnahagsmálum. (Gripið fram í: Vitringar.) Vitringar — auðvitað er æskilegt að þeir séu vitrir menn og færir, en ég átta mig ekki á þessu orðalagi.

Samantekið, herra forseti, á þeim stutta tíma sem ég hef haft hér til ráðstöfunar er mat mitt að hér sé vanbúið mál lagt fyrir þingið. Ég hef enga trú á því að flutningsmenn þessarar tillögu ætlist til þess í nokkurri alvöru að ráðist verði í þessar breytingar og Alþingi gefi grænt ljós á þær á ekki traustari grunni en þeim sem lagður er í athugasemdunum sem fylgja þingsályktunartillögunni. Það er alveg augljóst að þeirrar nefndar sem þessu máli verður vísað til bíður mikið verk við að greiða úr þessu þannig að þingið geti tekið málefnalega afstöðu til málsins. Það er ekki hægt, herra forseti, á (Forseti hringir.) grundvelli þeirra gagna sem nú liggja fyrir.