140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar, þær eru mjög góðar.

Hv. þingmaður spyr: Eru ekki líkur á því að vegna þess hversu illa þetta er undirbúið og lítið samráð haft að þessu verði breytt strax aftur?

Ég vil af því tilefni hvetja hv. þingmann og þingheim allan til að skoða þær örstuttu línur sem eru með þessari þingsályktunartillögu. Þar segir á bls. 4, með leyfi forseta:

„Ef raunverulega á að efla ráðuneytið“ — og það er verið að tala um efnahags- og viðskiptaráðuneytið — „þyrfti fyrst og fremst að auka getu þess til greiningar, áætlanagerðar og samhæfingar. Slík efling mundi að öllum líkindum krefjast umtalsverðrar fjölgunar starfsmanna.“

Virðulegi forseti. Það eru tvö ár síðan þeir settu þetta ráðuneyti á laggirnar. Það stóð upp úr hverjum einasta hæstv. ráðherra hvað þetta væri stórkostlegt, loksins var komið efnahags- og viðskiptaráðuneyti, hvorki meira né minna. Loksins kom almennilegt fólk sem kunni til verka. Nú eru þeir að uppgötva: Heyrðu, ef við ætlum að láta þetta fúnkera þurfum við að fá fullt af fólki, við höfum bara ekkert litið á þetta.

Við gagnrýndum hæstv. ríkisstjórn fyrir að undirbúa þetta ekki á sínum tíma og hún er að staðfesta að hún gerði það ekki. Það er ótrúleg yfirlýsing í þessari örstuttu greinargerð, menn gátu alveg eins skrifað: Við vissum ekki hvað við vorum að gera þegar við breyttum þessu.

Svarið er því mjög einfalt. Auðvitað eru miklar líkur á því að þetta breytist til baka vegna þess að þetta er ekki unnið, þetta er ekki lélegur undirbúningur, þetta er enginn undirbúningur.

Það sem menn eru að gera þegar þeir hræra í þessu og búa til risaráðuneyti er það sem langbesti ráðherra þessarar ríkisstjórnar benti á, fyrrverandi hæstv. ráðherra Ragna Árnadóttir. Hún sagði: Það er bara verið að færa völd til embættismanna.